Frumkvöðlar í Norðurslóðastarfi

F.v. Níels Einarsson og Þorsteinn Gunnarsson. Ljósmynd: Daníel Starrason.
F.v. Níels Einarsson og Þorsteinn Gunnarsson. Ljósmynd: Daníel Starrason.

Þorsteinn Gunnarsson og Níels Einarsson fengu nýverið viðurkenningu fyrir ötult starf í þágu Norðurslóða. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, afhenti þeim félögum viðurkenninguna við hátíðlega athöfn en hún er veitt í tilefni af 20 ára afmæli Háskóla norðurslóða (University of the Arctic, UArctic).

Þorsteinn Gunnarsson var rektor Háskólans á Akureyri frá 1994-2009 og á stóra hlutdeild í uppbyggingu norðurslóðasamstarfs á Íslandi, á sviði mennta og vísinda. Sem rektor Háskólans á Akureyri lagði Þorsteinn grunninn að þeirri miðstöð norðurslóða sem varð til á Akureyri og hefur haldið áfram að starfa í málaflokknum af mikilli hugsjón. Má í því samhengi nefna Vísindaviku norðurslóða, en Þorsteinn hafði veg og vanda af því að leiða það verkefni á síðasta ári.

Níels Einarsson er forstöðumaður Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem er íslensk norðurslóðastofnun sem hefur verð starfandi síðan 1997. Stofnuninni er ætlað innlent og alþjóðlegt hlutverk viðvíkjandi rannsóknum, upplýsingamiðlun, ráðgjöf og samvinnu á sviði sjálfbærrar þróunar og umhverfismála á Norðurslóðum. Stofnunin heyrir undir Umhverfisráðuneytið. Þorsteinn og Níels fengu málverk eftir Guðmund Ármann ásamt árnaðaróskum frá Eyjólfi Guðmundssyni, rektor Háskólans á Akureyri og Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar, segir í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri.

 


Nýjast