Háskólinn á Akureyri fagnar 25 ára afmæli á þessu ári en stofndagur skólans er 5. september 1987. Í tilefni afmælisins verður boðið upp á dagskrá alla tólf mánuði ársins. Þema afmælisársins er Háskólinn á Akureyri heimur í hnotskurn. Afmælisdagskráin var kynnt í hátíðarsal skólans í dag og er ljóst að árið verður bæði fróðlegt og skemmtilegt. Sérstakur afmælisvefur var opnaður á unak.is og þar geta áhugasamir kynnt sér helstu viðburði ársins.
Fram kom í málli Stefáns B. Sigurðssonar rekstors HA á fundinum í dag, að skólinn væri ungur þrátt fyrir árin 25. Hann nefndi að 25 ára einstaklingar þættu ekki gamlir en að þeir hefðu þó náð fullum þroska. Stefán sagði að skólinn hefði ekki náð meðalaldri þeirra stúdenta sem útskrifast frá HA, sem væri 28-29 ár. Starfsemi Hásólans á Akureyri hefur verið víða um bæinn í gegnum tíðina en er nú komin á einn stað á Sólborg. Í upphafi voru starfsmenn skólans fjórir og nemendurnir 31. Í dag eru starfsmenn um 190 og nemendur um 1.600, þar af er um helmingur í fjarnámi.
Nýtt afmælismerki HA var kynnt á fundinum en merkið mun skólinn nota á afmælisárinum m.a. í auglýsingum og á kynnngarefni. Þá var ýtt úr vör ljósmyndasamkeppni undir yfirskriftinni; Líf og störf fólks í Háskólanum á Akureyri. Allir áhugasamir geta tekið þátt í ljósmyndakeppninni. Mest má senda inn þrjár myndir og er skilafrestur til 15. júní nk. Úrslit verða kunngjörð á afmælishátiðinni 2. september í haust.
Á afmælisvefnum verða stiklur og myndir úr sögu háskólans. Safnað verður gömlum myndum sem tengjast starfsemi háskólans og þeim komið fyrir á afmælisvefnum. Leitað verður til notenda að þeir aðstoði við að nafngreina þá sem eru á myndunum og þar með eignast háskólinn heildstæðara myndasafn um sögu háskólans. Gefið verður út dagatal og dreift inn á öll heimili á Akureyri. Dagatalið prýða myndir úr háskólanum og fróðleiksmolar um starfsemi háskólans. Þá verður gefið út afmælisrit sem Bragi Guðmundsson, prófessor við kennaradeild, ritstýrir en auk hans mun fjöldi starfsmanna háskólans leggja til efni í ritið. Þá má nefna að ný stefna Háskólans á Akureyri verður kynnt snemma á afmælisárinu. Haldin verður vegleg hátíð að lokinni brautskráningu árið 2012 þar sem vænst er góðrar þátttöku frá afmælisárgöngum brautskráðra og Góðvinum háskólans. Háskólinn á Akureyri og Akureyrarbær, sem fagnar 150 ára afmæli í ár, munu standa saman að viðburði í ágústlok við Íslandsklukkuna. Afmælisdag háskólans 5. september ber upp á miðvikudag og af því tilefni verður afmælishátíð og opið hús sunnudaginn 2. september. Fullveldishátíð HA 1. desember verður veglegri en vanalega og á málþingi þennan dag verður kastljósinu beint að Háskólanum á Akureyri í fortíð, nútíð og framtíð. Verulegur hluti af dagskrá afmælisársins verður skipulagður af stúdentum, fræðasviðum og öðrum starfseiningum háskólans.
Afmælisnefndin vill virkja sem flesta í að skipuleggja afmælisviðburði og að taka þátt í afmælinu að öðru leyti, jafnt starfsfólk fræðasviða, háskólaskrifstofu og nemendur. Þannig taka þessir aðilar að sér skipulag afmælisdagskrár á tilteknum tímabilum. Þorsteinn Gunnarsson fyrrverandi rektor HA er formaður afmælisnefndar en með honum í nefndinni eru þau Dagmar Ýr Stefánsdóttir, Ása Guðmundsdóttir, Hermann Óskarsson, Ágúst Þór Árnason og Kristín Baldvinsdóttir.