Frídagur hinnar deyjandi stéttar

Grunnmyndin er úr safni frá sjómannadegi á Húsavík ljósmyndina tók Þorgeir Baldursson. Innfellda myn…
Grunnmyndin er úr safni frá sjómannadegi á Húsavík ljósmyndina tók Þorgeir Baldursson. Innfellda myndin er af höfundi en hana tók Baldur Starri Egilsson.

Frídagur sjómanna var á sunnudag fyrir rúmri viku. Á Húsavík var lítið um hátíðarhöld og dagurinn leið eins og hver annar sunnudagur. Covid 19 faraldurinn hefur þar eflaust eitthvað að segja. Þó má ekki má líta fram hjá því að sjóssókn frá Húsavík er hvorki fugl né fiskur miðað við það sem áður var ef frá er talin útgerð hvalaskoðunarbáta. Smábátaútgerð er sáralítil og nýliðun í greininni er nánast engin, enda er hún ömöguleg án aflaheimilda. Ef ekki væri fyrir útgerð GPG væri nánast engin fiskiútgerð á Húsavík.

Fyrir skemmstu barst svar við erindi Norðurþings til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um byggðakvóta á Kópaskeri. Sveitarstjóri hafði óskað eftir reglugerðarbreytingu svo úthluta megi sértækum byggðakvóta til Kópaskers á grundvelli byggðaátaksverkefnisins Brothættar byggðir; Öxarfjörður í sókn. Við brotthvarf Vísis hf. frá Húsavík árið 2014 hurfu um 60% af aflaheimildum Húsavíkur án þess að ríkið gerði nokkuð í málinu í kjölfarið. Margir smærri aðilar seldu sinn kvóta í burtu á sama tíma, og allur byggðarkvóti hvarf frá Húsavík.

Nær engin byggðarkvóti er á Kópaskeri. Afli sem kæmi að landi á Kópaskeri yrði unnin á staðnum og því gríðarlegt hagsmunamál fyrir þessar brothættu byggðir.

Svar Kristjáns Þórs Júlíussonar, ráðherra sjávarútvegsmála var þunnt. Bent var á að ráðstöfun sértæks byggðakvóta sé alfarið á höndum Byggðastofnunar. Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun þá eru þær aflaheimildir sem ráðstafað er til sértæks byggðakvóta fullnýttar skv. þeim samningum sem Byggðastofnun hefur gert. Það er því ekki útlit fyrir að Kópasker fái úthlutað sértækum byggðakvóta á næstunni og þorpinu blæðir út á meðan.

Ágætur smábátasjómaður af svæðinu sagði mér fyrir skemmstu að þetta væri sagan endalausa. Ríkið og Byggðastofnun hefðu lengi leikið þann leik að benda á hvort annað og enginn tekur ákvarðanir sem geta hjálpað byggðunum. Sami sjómaður spurðist fyrir hjá byggðastofnun fyrir nokkru síðan af hverju sértækum byggðakvóta væri ekki úthlutað á Kópaskeri. Svarið var einfalt; það hafði aldrei verið beðið um hann.

Er það virkilega svo að sveitarstjórn hafi hreinlega ekki haft áhuga á að fá þessar aflaheimildir inn í brothættu byggðirnar? Snýst verkefnið um Brothættar byggðir eingöngu um frumkvöðlastarfsemi sem er hipp og kúl? Frumkvöðlastarfsemi er að sjálfsögðu af hinu góða og vonandi verður hún sem mest. En með því að eyða púðri í grunnatvinnuvegina sem þorpin hafa byggst á hljótum við að búa til lífvænlegra umhverfi fyrir hverskyns frumkvöðlastarfsemi til að þrífast í.

Pistillinn birtist fyrst í Vikublaðinu á fimmtudag

Egill P. Egilsson


Athugasemdir

Nýjast