Fréttaannáll Vikublaðsins 2020-Seinni hluti

Mynd/Akureyrarbær
Mynd/Akureyrarbær

Við höldum áfram að rýna í árið 2020. Í gær var farið yfir það helsta frá janúar til og með júní en nú er komið að seinna hlutanum; júlí og fram að áramótum. 

Júlí

*Greint frá því að verslunarkjarni muni opna í gamla Sjafnarhúsinu á Akureyri við Austursíðu 2. Félagið Norðurtorg ehf. keypti húsnæðið og óskaði eftir heimild til að byggja við húsið og fara í jarðvegsskipti fyrir fyrirhuguð bílastæði sunnan hússins. Blaðið hafði fengið það staðfest að Rúmfatalagerinn sé ein af þeim verslunum sem mun færast í verslunarkjarnann en Rúmfatalagerinn hefur verið í Glerártorgi frá stofnun verslunarmiðstöðvarinnar. Unnið er í því að fá aðrar verslanir. Samkvæmt heimildum blaðsins mun önnur stór verslun færast í Sjafnarhúsið. Verslunarkjarninn mun bera nafnið Norðurtorg og vera í anda Korputorgs í Reykjavík þar sem margar verslanir verða í einu og sama húsinu.

*Gestur Davíðsson, varðstjóri í fangelsinu á Akureyri, sagði í samtali við Vikublaðið þungt hljóð vera í starfsfólki eftir að dóms­málaráðuneytið grein­di frá því að fang­els­inu á Ak­ur­eyri yrði lokað. Fang­elsið á Ak­ur­eyri er minnsta rekstr­arein­ing Fang­els­is­mála­stofn­un­ar en þar eru vistaðir 8-10 fang­ar að jafnaði. Sagði á vef Stjórnarráðsins að með lok­un fang­els­ins sé hægt að nýta fjár­muni á mun betri hátt og að kostnaður við hvert fangapláss á Litla-Hrauni og á Hólmsheiði sé mun lægri en á Akureyri vegna samlegðaráhrifa við önnur fangelsi.

*80 starfsmönnum PCC á Bakka var sagt upp og slökkt á báðum ofnum kísilverksmiðjunnar um mánaðarmótin júní/júlí. Stefnt er á að hefja framleiðslu á ný þegar betur árar á markaði. Rúnar Sigurpálsson forstjóri kísilversins sagði í samtali við Vikublaðið að verksmiðjan myndi vonandi fara í gang aftur þegar aðstæður á markaði myndu glæðast og þá vonaðist hann til að geta endurráðið starfsfólkið sem sagt hefur verið upp.

*Jóhannes Sigurjónsson stóð á tímamótum þar sem hann lagði pennann á hilluna eftir farsælan feril í blaðamennsku. Jóhannes hefur þjónað Húsvíkingum og nærsveitungum í rúm fjörutíu ár sem blaðamaður og ritstjóri. Fyrst á Víkurblaðinu sem stofnað var 1979 og síðar á þingeyska fréttablaðinu Skarpi. Um mánaðarmótin ákvað hann að láta staðar numið og sagðist í samtali við Vikublaðið ánægður með þá ákvörðun.

Ágúst

*Guðmundur Haukur Sigurðsson framkvæmdastjóri Vistorku skoraði á bæjaryfirvöld og bæjarbúa á Akureyri í að gera með sér Samgöngusáttmála sem snýst um að hætta smám saman að nota olíu í samgöngum, fækka bílakílómetrum og fjölga göngu-, hjóla- og strætóferðum. Sagði Guðmundur að nú þegar séu ágætar aðstæður til að skipta úr olíu- í metan- eða rafmagnsbíl á Akureyri en í byrjun ársins 2020 var hlutfall þessara bíla af heildarflotanum á Akureyri rúmlega 5%.

*Auður Katrín Víðisdóttir frá Laugum í Reykjadal dúxaði í innanhússhönnun við virtan alþjóðlegan skóla í Mílanó á Ítalíu. Skólinn heitir við Istituto Europeo di Design (IED) og lauk Auður námi í lok júlí með hæstu mögulegu einkunn eða 110 stig af 110 mögulegum.

*Töluverðar umræður voru um hjólreiðar í Vaðlaheiðargöngum en ekki er leyfilegt að hjóla í gegnum göngin. Vaðlaheiðargöng og Hvalfjarðargöng eru einu göngin á landinu sem banna hjólreiðar. Oddur Helgi Halldórsson, fyrrum bæjarfulltrúi á Akureyri og baráttumaður fyrir Vaðlaheiðargöngum á sínum tíma, vakti athygli á málinu er hann skrifaði grein í blaðið og gagnrýndi mjög að ekki sé leyfilegt að hjóla í gegnum göngin.

September

*Hjónin Sævar Helgason og Sara Dögg Pétursdóttir á Akureyri gerðu sér lítið fyrir og klifu Hraundranga í Öxnadal undir forystu Jökuls Bergmanns fjallaleiðsögumanns. Alls tók ferðin átta og hálfan klukkutíma. „Maður er ennþá að vinna úr tilfinningunum eftir þessa ferð,“ sagði Sævar þegar Vikublaðið sló á þráðinn til hans tveimur dögum eftir afrekið.

*Greint var frá því að Víkurskel ehf. vinni að því að kanna hagkvæmni þess að byggja upp landeldi á ostrum á Húsavík. Reynslan hefur sýnt að eftirspurn eftir ferskri ostru er mikil bæði hér á landi og erlendis. „Með landeldi er hægt að hafa fulla stjórn á mikilvægum umhverfisþáttum sem ráða miklu um vöxt og gæði ostrunnar eins og vatnshita, seltustigi, sem og magni og samsetningu næringar,“ sagði Sæbjörn Sigurðarson verkefnastjóri í samtali við Vikublaðið.

*Sagt er frá þungum rekstri Akureyrarbæjar. Rekstur Akureyrarbæjar er þungur en halli á aðalsjóðs bæjarins var áætlaður um einn milljarður króna en núna stefndi í að hallinn yrði langleiðina í þrjá milljarða króna. Að mati Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra þarf að skoða allan rekstur bæjarins og ljóst að skera þarf niður í þjónustu til að rétta reksturinn af.

*Vinnsla á stórþara í pípunum á Húsavík. Á fundi byggðarráðs Norðurþings var tekið fyrir bréf frá Islands Þari ehf. þar sem fyrirtækið lýsir yfir að Húsavík sé þeirra fyrsti kostur til uppsetningar á þaravinnslu. Útlit er fyrir að starfseminni fylgi 80 stöðugildi í landi og 20 á sjó.

Október

*Þorkell Ásgeir Jóhannsson, fyrrum flugstjóri hjá Mýflugi, sem sér um sjúkraflutninga í lofti, varar við því að bæjaryfirvöld á Akureyri heimili að reist verði háhýsabyggð á Oddeyri eins og áætlanir eru um. Þorkell segir að það geti haft alvarlegar afleiðingar að reisa háhýsi í flugbrautarstefnu Akureyrarflugvallar.

*Starfsfólki leikskólans Grænuvalla á Húsavík var sagt upp ákvæði í ráðningasamningi sem lítur að greiðslu á 11 yfirvinnutímum vegna sveigjanlegra neysluhléa. Samkvæmt upplýsingum frá Norðurþingi er gert ráð fyrir að aðgerðirnar spari sveitarfélaginu um 24 milljónir á ári. Starfsmenn Leikskólans á Grænuvöllum komu saman til fundar til að bregðast við ákvörðun Norðurþings um að segja upp fastri yfirvinnu sem starfsmenn hafa fengið fram að þessu og tengist sveigjanlegum neysluhléum á vinnutíma.

*Upp kom Covid-19 smit hjá starfsmanni á Kristnesspítala í Eyjafjarðarsveit og þurftu 13 sjúklingar og 10 starfsmenn að fara í sóttkví. Vegna þessa var þjónustan á Kristnesspítala takmörkuð í tvær vikur. Engin frekari smit greindust hins vegar á spítalanum.

*Axel Albert Jensen vinnur að því í samstarfi við Hopp í Reykjavík og Akureyrarbæ að koma upp rafskútuleigu á Akureyri næsta vor. Um er að ræða stöðvalausa hjólaleigu og munu gilda sömu reglur og í Reykjavík þar sem nokkur reynsla er komin á slíka starfsemi undir merkjum Hopp. Byrjað verður á 60 hjólum til leigu.

Nóvember

Kórónuveirusmitum fjölgar ört á Norðurlandi eystra og voru yfir hundrað í einangrun og á fimmta hundrað í sóttkví. Flest smitin sem voru að greinast á landshlutanum voru á Akureyri og á Dalvík. Um 10% Dalvíkinga voru í sóttkví. Þeim fjölgaði sem þurftu innlögn á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Starfsmaður í skammtíma- og frístundaþjónustu fyrir fatlaða á Akureyri greindist með Covid-19. Af þessum sökum þurftu um eða yfir 30 starfsmenn og notendur þjónustunnar að fara í sóttkví og stofnunni lokað tímabundið. Enginn frekari smit urðu.

*Átta af tíu þingmönnum NA-kjördæmis hafa ákveðið að gefa kost á sér í þingkosningum næsta haust en Vikublaðið kannað hug þingmanna kjördæmisins fyrir haustkosningarnar 2021. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og oddviti VG í kjördæminu, hyggst ekki gefa kost á sér. Þá hefur Kristján Þór Júlíusson, sjávar-og landbúnaðarráðherra, og oddviti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, enga ákvörðun tekið.

*Samkvæmt nýrri könnun Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) er meirihluti Akureyringa ánægður með þá ákvörðun bæjaryfirvalda að fella niður minni og meirihlutann líkt og gert var í haust. Alls svöruðu 534 spurningunni og af þeim höfðu 13% ekki myndað sér skoðun. Af þeim sem höfðu myndað sér skoðun leist 30% mjög vel á breytinguna, 28% frekar vel og 27% hvorki vel né illa. 16% aðspurðra leist frekar eða mjög illa á.

*Akureyrarkirkja varð 80 ára þriðjudaginn 17. nóvember en kirkjan var reist árið 1940. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, segir kirkjuna vera eitt helsta kennileiti bæjarins og tákn hans og bæjarbúum sé annt um kirkjuna.

Desember

*Greint er frá því að frá og með haustinu 2021 verður 12 mánaða gömlum börnum boðin leikskólavist á Akureyri eða börnum sem eru fædd í ágúst 2020 og eldri. Með tilkomu Klappa, nýja leikskólans við Höfðahlíð sem áætlað er að taka í gagnið haustið 2021 og Árholts, verður þetta möguleiki.

*Krónan mun opna verslun á Akureyri árið 2022 en verslunarrisinn hefur lengi stefnt að því að opna verslun í bænum. Þá er einnig gert ráð fyrir hringtorgi á Tryggvabraut samhliða byggingu á Krónuverslun.

*Sveitarstjórn Norðurþings samþykkir fjárhagsáætlun fyrir 2021 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2022-2024. Í útkomuspá ársins 2020 stefnir því í tæplega 100 m.kr. halla en ljóst er að gerð fjárhagsáætlunarinnar hefur mótast af Covid-19 heimsfaraldrinum. Þá eru væntingar til tekjuaukningar hófstilltar en áhersla lögð á að verja störf og þjónustu hjá sveitarfélaginu.

 


Athugasemdir

Nýjast