Fréttaannáll Vikublaðsins 2020-Fyrri hluti

Mynd/Hilmar Friðjónsson.
Mynd/Hilmar Friðjónsson.

Þar sem árið 2020 er senn á að enda er ekki úr vegi að líta aðeins um öxl og fara yfir það sem helst bar til tíðinda á árinu hér á svæðinu. Næstu tvo daga munum við rýna í árið og byrjum á að skoða janúar fram yfir júní. Á morgun lítum við yfir seinni hluta ársins, frá júlí til desember.

Janúar

*Veturinn síðastliðni var ansi snjóþungur á Norðurlandi. „Það er mjög óvanalegt að svona mikill snjór sé viðvarandi í þetta langan tíma,“ sagði Finnur Aðalbjörnsson verktaki á Akureyri. Hann er eldri tvívetra þegar kemur að sjómokstri og sagði veturinn hafa verið ansi erfiðan. „Við höfum nánast unnið sleitulaust frá því í byrjun desember. Það voru tveir dagar í kringum jólin sem við fengum frá. Annars hefur þetta verið linnlaust.,“ segir Finnur. Spurður hvort hann muni eftir öðrum eins vetri segir Finnur: „Nei, ég man ekki eftir öðru eins í fljótu bragði. Ekki svona löngum kafla samfleytt í snjómokstri.“

*Ingvar Már Gíslason, formaður KA, sagði bæjaryfirvöld á Akureyri vera áhugalaus um uppbyggingu á svæði félagsins og skorta pólitískt þor til uppbyggingar íþróttamannvirkja í bænum. Þetta sagði Ingvar í ávarpi sem hann flutti á 92 ára afmæli KA og sagði aðstöðu KA vera barn síns tíma og hafi á engan hátt þróast með félaginu síðustu ár.

*KEA skilað lóðinni við Hafnarstræti 80 á Akureyri til bæjaryfirvalda og því varð ekkert af byggingu hótels á lóðinni af hálfu félagsins. KEA hefur undanfarin ár áformað að reisa og leigja 150 herbergja hótel við Hafnarstræti 80 eða á svokallaðri Umferðarmiðstöðvarlóð. Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, sagði ekki hafi skapast skilyrði fyrir því að áform félagsins á lóðinni gangi eftir eins og lagt var upp með. 

Febrúar

*Flugvél hollenska flugfélagsins Transavia lenti á Akureyrarflugvelli með fyrstu farþegana sem koma til Norðurlands á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel. Þetta var í fyrsta sinn sem Voigt Travel býður upp á beint flug frá Hollandi til Norðurlands að vetrarlagi, en ferðaskrifstofan bauð upp á sumarferðir árið 2019 sem vöktu mikla lukku. Alls var farið í átta ferðir til Norðurlands, tvisvar í viku fram til 9. mars. ILS aðflugsbúnaður hafði nýverið verið tekinn í notkun á Akureyrarflugvelli og Transavia fyrsta flugfélagið sem nýtti þennan búnað til aðflugs í reglubundnu millilandaflugi.

*Greint var frá því að bæjaryfirvöld á Akureyri skoði þann möguleika að breyta bílastæðamálum í miðbæ Akureyrar og að taka upp gjaldskyldu í stað klukkustæðis. Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar, sagði nokkrar ástæður liggja að baki. „Erlendir ferðamenn koma t.d. meira til bæjarins nú en áður og við höfum heyrt að þeir skilji misjafnlega vel þetta klukkukerfi sem við höfum. Einnig hefur markmiðið með að dreifa bílastæðunum ekki tekist þar sem menn fara bara út og breyta klukkunni,“ segir Pétur Ingi. Nú er orðið ljóst að gjaldataka mun hefjast innan tíðar.

Mars

*Hér var Covid-19 farið að minna á sig og á þriðja tug smita höfðu greinst á Íslandi en þó ekkert á Norðurlandi. Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) hafði í samráði við sóttvarnarlækni tekið þátt í undirbúningi um viðbrögð við kórónaveirunni, Covid 19, sem nú dreifði sér hratt um gervallan heim og var vinnu sjúkrahússins hagað samkvæmt viðbragðsáætlunum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. „Við fylgjumst náið með og erum í viðbragðsstöðu,“ sagði Sigurður.

*Akureyringurinn Sigrún Stella Bessason, starfandi tónlistarkona í Toronto í Kanada, var í ítarlegu viðtali en hún vakti mikla athygli í byrjun ársins með laginu Sideways sem hún sendi frá sér í sl. vetur en lagið sló í gegn og raðaði sér m.a. í efstu sæti vinsældarlista hérlendis.

*Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, sagði aðila í ferðaþjónustu á svæðinu áhyggjufulla vegna stöðunnar sem upp var komin vegna úbreiðslu COVID-19 veirunnar. Veturinn hafi verið ferðaþjónustunni erfiður og treystu margir á gott sumar. Hún sagði að fari allt á versta veg geti mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu, bæði stór og smá lognast útaf. Eins og flestum er nú kunnugt teygðist heldur betur á heimsfaraldrinum sem enn sér ekki fyrir endann á.

Apríl

*Hér var kóróunuveiran farin að herja á Norðlendinga. Greint var frá því að alls höfðu átta manns lagst inn á Covid-legudeildina á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) vegna gruns um smit á kórónuveirunni. Þá höfðu þrír einstaklingar legið inn á gjörgæsludeild Sjúkrahússins. Á þessum tíma voru 47 smitaðir á svæðinu, langflestir á Akureyri og 84 í sóttkví.

Mynd/Þorgeir Baldursson

*Ásdís Arnardóttir sellóleikari var valin bæjarlistamaður Akureyrar árið 2020. Valið var kunngert á Vorkomu Akureyrarstofu sem haldin var í netheimum vegna samkomubanns. Ásdís sagði í samtali við blaðið að valið hefði komið sér á óvart. „Svo sannarlega, kom mér skemmtilega á óvart þar sem ég veit að margir frambærilegir listamenn sækja um þennan heiður á hverju ári.“

*Fyrsta skóflustunga að leikskólanum Klöppum við Glerárskóla á Akureyri var tekin rétt fyrir Páskahátíðina. Leikskólinn verður alls um 1.450 fermetrar á tveimur hæðum og verður innangengt yfir í grunnskóla og íþróttamiðstöð. Gert er ráð fyrir sjö deilda leikskóla með 144 rýmum, þar af ungbarnadeild, og er fyrirhugað að með tilkomu skólans verði hægt að bjóða öllum börnum 12 mánaða og eldri leikskólavist.

Maí

*Hér var greint frá því að skíðasvæðið í Hlíðarfjalli hafi orðið af helmingi tekna vetursins vegna kórónuveirunnar. Skíðasvæði landsins lokuðu 20. mars vegna COVID-19, æfingar og mótahald var bannað en gönguskíðabrautir voru áfram opnar. Guðmundur Karl Jónsson, þáverandi forstöðumaður Hlíðarfjalls, taldi að tugir milljóna hafi tapast eða um helming áætlaðra tekna. Hann sagði tímabilin í raun vera tvö, annars vegar vetrarfríið og hins vegar páskarnir. Það koma svo á daginn að tap Hlíðarfjalls var umtalsvert.

*Örveruvöxtur greindist í þremur grunnskólum á Akureyri; Brekkuskóla, Oddeyrarskóla og Lundarskóla. Þegar þarna var komið sögu var verið að vinna að úrbótum í Lundarskóla en í mörg ár hefur starfsfólk skólans kvartað undan óþægindum sem hugsanlega megi rekja til myglusvepps. Síðar var farið í umfangsmiklar endurbætur á skólanum sem enn standa yfir. Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari á Akureyri og trúnaðarmaður, hafði fyrr í mánuðinum ritað grein í blaðið þar sem hún vakti athygli á myglu í grunnskólum bæjarins.

*Ágreiningur var á milli Akureyrarbæjar og stjórnvalda um rekstur hjúkrunarheimila. Ríkið krafðist þess af bænum að hann ábyrgist rekstur hjúkrunarheimilis í Lögmannshlíð sem stendur til að byggja, að öðrum kosti yrði ekki byggt. Bæjarstjórn stóð fast á kröfu sinni um að ríkið beri ábyrgð á rekstrinum, sem og öðrum hjúkrunarheimilum, sem bærinn hyggst hætta að koma að.

Við höldum áfram að gera upp árið og líta yfir farinn veg og það helst sem stóð uppúr á árinu 2020 hér á svæðinu. Nú er komið að júní til september.

Júní

*Vígsluhátíð á Hjartanu í miðbæ Akureyrar fór fram þar sem veglegt hjarta var formlega afhúpað. Hönnun á verkinu er eftir Úlfar Gunnarsson en Arnar Friðriksson smíðaði gripinn. Þórhallur Jónsson, formaður miðbæjarsamtakanna á Akureyri, kynnti Hjartað til leiks á hátíðinni að viðstöddum fjölda bæjarbúa. „Það er von okkar að þetta hjarta eigi eftir að vekja mikla athygli og að engin fari hér í gegnum bæinn okkar án þess að koma við og taka mynd af sér við hjartað. Einnig vonum við að hasstaggið okkar #loveakureyri eigi eftir að auglýsa Akureyri um allan heim og vekja enn meiri athygli á okkar fallega bæ,“ sagði Þórhallur.

*Fyrsta stigamót sumarsins í götuhjólreiðum, Skjálfandamót HFA og Völsungs, fór fram og hjóluðu keppendur frá Akureyri til Húsavíkur. Veður var frábært, aðstæður góður og mikil ánægja var með mótið í heild að sögn mótshaldara. Alls 90 keppendur voru skráðir og fjöldi fólks fylgdist með.

*Akureyringurinn Kristján Ingimarsson hlaut tilnefningu til hinna virtu dönsku Reumert verðlauna 2020 í flokknum Årets Særpris fyrir sýninguna Room 4.1 LIVE. Þetta var í fimmta skipti sem Kristján er tilnefndur til dönsku leiklistarverðlaunanna en hann vann verðlaunin 2012 fyrir sýninguna BLAM! sem einnig var sýnd í Hofi á Akureyri og Borgarleikhúsinu á sínum tíma.

*Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel ákvað að aflýsa öllum flugferðum á sínum vegum í sumar, þ.m.t. til Akureyrar. Ástæðan var óvissan sem enn ríkti vegna Covid 19 faraldursins. Voigt Travel stóð fyrir vikulegum flugferðum milli Rotterdam og Akureyrar sumarið 2019. Stefnt var að 10 flugferðum frá Amsterdam til Akureyrar frá og með 10. Febrúar á næsta ári en því var síðar aflýst.


Athugasemdir

Nýjast