Frestun sparnaðaraðgerða hefði kostað 25 milljónir króna á mánuði

Halldór Jónsson forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri sagði á opnum fundi um niðurskurð í heilbrigðismálum á Akureyri í kvöld, að nauðsynlegt hafi verið að ganga í sparnaðaraðgerðir sem allra fyrst. Hver mánuður sem dregist hefði að ráðast í aðgerðir hefði kostað spítalann 25 milljónir króna. "Þetta er bara svona og er ekki mjög flókið dæmi."  

Halldór sagði að ákvörðunum að loka hjúkrunardeildinni Seli og flytja vistmenn á Kristnesspítala myndi spara 100 milljónir króna á ársgrundvelli og að sparnaðurinn á þessu ári yrði 70 milljónir króna. Þetta væri lang stærsta einstaka aðgerðin sem hægt var að framkvæma og það með minni háttar breytingum, eins og Halldór orðaði það. Einnig hefur verið ákveðið að loka dagdeild geðdeildar þann 1. febrúar nk. og hún sameinuð göngudeild. Með því myndu sparast 6-7 milljónir króna á árinu. Til stóð að opna sameinaða deild í Seli í október nk. en Halldór sagðist vonast til að hægt yrði opna fyrr. Þá sagði Halldór að í heildina myndi störfum á FSA fækka um 25 á þessu ári. Hann sagði einnig að allt yrði gert til þess að skerða þjónustuna sem minnst.

Halldór sagði að þær aðgerðir sem hafa verið í gangi á FSA hafi verið mikið í umræðunni. Það væri einnig verið vinna að slíkum aðgerðum annars staðar og að margt ætti eftir að koma í ljós. Hann sagði að á FSA væru menn tilbúnir að vinna áfram að því að bjóða upp á góða þjónustu, innan þess ramma sem Alþingi setur.

Nýjast