Fresta breytingum á bílaumferð í Göngugötunni

Mikil andstaða hefur verið meðal atvinnurekenda í miðbæ Akureyrar við aðgerðir er snúa að því að  takmarka bílaumferð í Göngugötunni. Aðgerðunum sem taka áttu gildi 1. júní, hefur nú verið frestað vegna þessa.

Skipaður var vinnuhópur fólks á síðasta ári til að móta tillögur um lokun Göngugötunnar fyrir bílaumferð. Hópurinn samanstóð af fólki víða að úr samfélaginu á Akureyri. Engar reglur hafa hingað til verið settar, heldur hafa lokanir verið háð mati í hvert sinn. Veður og komur skemmtiferðaskipa hafa verið algeng viðmið. Vinnuhópnum var ætlað að móta skýrari viðmið til að fara eftir við lokanir.

Vinnuhópurinn komst að þeirri niðurstöðu að loka ætti götunni fyrir bílaumferð allar helgar í júní og ágúst, milli kl. 11 og 17, og á sama tíma alla daga í júlí. Lokununum var ætlað að bæta ásýnd miðbæjarins með því að fjölga gangandi vegfarendum. Gerð var könnun sem sýndi fram á að lokun hefði engin áhrif á almennt umferðarflæði. Einnig hefur það sýnt sig að meirihluti Akureyringa er hlynntur frekari takmörkun á bílaumferð. Bæjarstjórn fékk tillögur vinnuhópsins inn á borð til sín og áttu að taka gildi um næstu mánaðamót.

Verslunar- og veitingamenn mótmæltu

Þessu mótmæltu margir verslunar- og veitingahúsaeigendur í Göngugötunni. Þeir hafa lengi barist gegn því að takmarka þar bílaumferð. Þeir hafa m.a. sett af stað undirskriftasöfnun máli sínu til stuðnings. þeir eru ósáttir við að ekki hafi verið haft meira samráð við atvinnurekendur í miðbænum, þrátt fyrir að miðbæjarsamtökin á Akureyri hafi átt fulltrúa í vinnuhópnum.

Þessum mótmælum hefur verið komið til bæjarstjórnar. Gildistöku breytinganna verði því frestað svo atvinnurekendur í miðbænum fái tækifæri til að ræða þær betur. Stefnt er á að málið verði tekið upp í bæjarstjórn á ný 7. júní. Rúv sagði fyrst frá þessu. /epe.

Nýjast