„Frekar en að vera kallaðir mýs þöndum við út brjóstkassana”

Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri.
Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri.

Ingólfur Sverrisson skrifar:

Eyrarpúki

„Blása meira, blása meira,” sagði Ágústa litla systir þegar við Árni bróðir stóðum uppi á stól við herbergisgluggann og blésum allt hvað af tók á frostrósirnar á rúðunni.  Smá saman tókst okkur að mynda ofurlítið gat á frostnu glerinu og fórum að sjá í gegn út á lóð. En þá tók ekki betra við því stórhríðin undanfarna daga hafði safnað í heljarins skafl fyrir sunnan húsið okkar svo ekki sást í það næsta. Þar að auki var enn fok í snjónum og kófið það mikið að himininn var hulinn sjónum okkar hvað sem bræðslugatið á rúðunni stækkaði. Síðustu daga hafði húsið verið rafmagnslaust, eins og önnur hús á Akureyri, því virkjunin í Laxá var enn einu sinni óstarfhæf vegna krapa í ánni. Því var ekki annað ráð en að elda við prímus með steinolíu úr Bögglageymslunni en hiti hélst góður í húsinu vegna þess að kolakyndingin í kjallaranum var ekki háð dyntum einhverrar ársprænu austur í Þingeyjarsýslu. Því leið okkur vel við kertaljós og yl og biðum þess að stytti upp svo hægt væri að drífa sig út í þennan mikla snjó sem bauð upp á mörg æsileg ævintýri.   

Niðurstaða rannsóknarvinnu okkar bræðra við gluggann sýndi að tímabært væri að hefja útrás. Við klæddumst úlpunum hlýju, þykku lopavettlingunum og  skinnhúfunum trónandi efst; óðar komnir út á götu og tróðum marvaðann í snjónum suður að spennustöðunni bak við Sínubakarí. Eftir töluvert brölt tókst okkur að klifra upp á stöðvarhúsið. Þar voru þá fyrir vinir okkar Baddi (Snæbjörn Þórðarson) og Jonni (Jón Þ. Þór) og urðu fagnaðarfundir. Skipti þá engum togum að Baddi hljóp allt í einu á fullu eftir þakinu, tók svo undir sig stökk og sveif í fósturstellingu vestur af og lenti loks í stóra skaflinum sem þar var. Við það gaus upp mikið snjókóf og vinur okkar hvarf ofaní snjómassann. Segir ekki af honum fyrr en hann birtist til hliðar úr skaflinum þar sem hann hafði grafið sig út. Við félagarnir á þakinu vörpuðum öndinni léttar þegar hann baðaði út öllum öngum og hló dátt þó varla sæist í dökkann díl á honum, þakinn snjó frá hvirfli til ylja. Hann hvatti okkur, sem hímdum enn á þakinu, að stökkva líka. Frekar en að vera kallaðir mýs þöndum við út brjóstkassana og svifum svo allir sömu leið og Baddi og létum öllum látum í skaflinum, kátir og glaðir. Síðan var farið aftur upp á spennistöðina og stokkið aftur og aftur þangað til við vorum orðnir úrvinda.

Þegar hér var komið sögu var það samdóma álit okkar félaga að tímabært væri að halda vestur fyrir Sínubakarí því þar gerðust oft undur og stórmerki. Undir vesturgafli bakarísins kölluðum við stundarhátt: „Enda, enda.”   Þetta heyrði Kai bakari sem var að vinna fyrir innan og kastaði umsvifalaust vínarbrauðsendum til okkar út um efri gluggann.  Og þarna sátum við vinirnir í snjónum, átum glassúrhúðaða  vínarbrauðsenda af ákafa og lyngdum aftur augunum í alsælu; horfðum svo með aðdáun á bakaríið sem við vorum vissir um að væri það lang besta í öllum heiminum!

Ingólfur Sverrisson

Smellið gif


Nýjast