Framúrskarandi háskólakennari

“Ummæli nemenda um Sigurð eru á einn veg, hann er talinn snilldarkennari sem hefur mikinn áhuga á námsefninu og hrífur nemendur með. Hann kemur efninu frá sér á skýran og skemmtilegan hátt. Hann er góður fyrirlesari sem heldur athygli nemenda allan tímann með léttri og skemmtilegri kennslu.” Þetta segir m.a. í greinargerð dómnefndar um Sigurð Bjarklind aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, en á laugardag fékk hann viðurkenningu fyrir framúrskarandi kennslu, en slík viðurkennig var veitt í fyrsta sinn á háskólahátíð. Viðurkenningarnefnd sem í áttu sæti, Þóroddur Bjarnason, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir og Baldur Guðnason, fékk þrjár tilnefningar frá kennslusviði og Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri. Nefndin var einhuga um að Sigurður Bjarklind skyldi hljóta viðurkenninguna að þessu sinni en aðrir tilnefndir voru Helgi Gestsson lektor í viðskipta- og raunvísindadeild og Sigrún Sveinbjörnsdóttir dósent í hug- og félagsvísindadeild.
Í greinargerð sem fylgdi tilnefningunum segir m.a: “  Sigurður þykir útskýra námsefnið á áhugavekjandi og fræðandi máta. Sigurður sýnir nemendum virðingu sem lýsir sér í því að hann fer fljótt og vel yfir próf og verkefni og stendur við gerðar áætlanir. Hann svarar tölvupósti fljótt á hvetjandi og upplýsandi hátt sem nemendur kunna vel að meta.”

Nýjast