Framsýn krefst þess að Alþingi standi í lappirnar

Ljósmynd: framsyn.is
Ljósmynd: framsyn.is

Framsýn, stéttarfélag hefur samþykkt að senda frá sér ályktun um ákvörðun Landsvirkjunar um að setja sér reglur um keðjuábyrgð. Þar kemur m.a. fram að stéttarfélagið hafi lengi kallað eftir að Alþingi setji lög um keðjuábyrgð verktaka, því staðan í þessum málum í dag sé „óþolandi“ auk þess sem hún kalli á undirboð. Framsýn fagnar þessu frumkvæði Landsvikjunar og skorar á verkkaupa að fylgja þessu fordæmi.

Ályktun Framsýnar má lesa í heild sinni hér að neðan:

Um samþykkt stjórnar Landsvirkjunar um keðjuábyrgð verktaka

„Framsýn, stéttarfélag fagnar sérstaklega ákvörðun Landsvirkjunar um að setja sér reglur um keðjuábyrgð. Reglunum er ætlað að tryggja að allir sem vinna fyrir Landsvirkjun á óbeinan hátt, hjá verktökum, undirverktökum eða starfsmannaleigum, njóti réttinda og kjara í samræmi við lög og kjarasamninga.

Framsýn hefur lengi kallað eftir reglum sem þessum, það er að Alþingi setji lög um keðjuábyrgð verktaka, þar sem núverandi staða mála er gjörsamlega óþolandi og kallar auk þess á undirboð.

Það að Landsvirkjun skuli stiga fram og marka sér stefnu í þessu mikilvæga máli er gott fordæmi fyrir aðra verkkaupa, ekki síst ríkið og sveitarfélög.

Framsýn skorar hér með á verkkaupa að fylgja fordæmi Landsvirkjunar um leið og félagið krefst þess að Alþingi standi í lappirnar og taki á þessum málum með því að setja lög um keðjuábyrgð verktaka.“

Nýjast