Framsókn gæti styrkt meirihlutann

Birgir Guðmundsson, dósent og stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri.
Birgir Guðmundsson, dósent og stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri.

Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur við  Háskólann á Akureyri var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og fjallað er um á vef RÚV. Þar segir hann að stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar sé afar opinn fyrir túlkunum og ráðherrarnir hafi því ekki skýran leiðarvísi í störfum sínum.

„Þetta á líklega eftir að einkenna samstarfið, því nú þarf stjórnin og stjórnarflokkarnir að diskútera út og koma sér saman um alls kyns mál,” segir hann.

Birgir segir jafnframt að aflandsskýrslumál Bjarna Benediktssonar sé afar klaufalegt og komi á slæmum tíma. En eins og kunnugt er skilaði Bjarni ekki inn skýrslu um aflandseignir Íslend­inga til kynningar fyrr en þremur mán­uðum eftir að hún var kynnt honum og tæpum fjórum mán­uðum eftir að henni var skilað inn til ráðu­neytis hans. Bjarni hefur þurft að sitja undir mikilli gagnrýni vegna þessa og bent hefur verið á að hefði skýrslan verið lögð fyrir þingið fyrir kosningar hefðu úrslit kosninganna mögulega getað orðið önnur.

Framsókn fjórði flokkur?

Birgir heldur því fram í viðtalinu að möguleikinn á því að taka Framsóknarflokkinn inn í ríkisstjórn sem fjórða flokk síðar á kjörtímabilinu sé raunhæfur kostur. „Það er alveg þekkt að slíkt gerist þegar þú ert með knappan meirihluta. Það gerði Steingrímur Hermannsson til dæmis þegar hann tók Borgaraflokkinn inn. Ég held að það sé að mörgu leyti kostur í þessari stöðu,“ segir hann og bendir á að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi verið að brýna gagnrýnisraddir sínar undanfarið á meðan að Framsóknarflokkurinn hafi talað  á  jákvæðari nótum um nýja stjórnarsamstarfið.

Nýjast