Í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 kemur fram að gert sé ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu legudeildar við Sjúkrahúsið á Akureyri verði hafnar árið 2023. Þetta kemur fram í pistli Bjarna Jónassonar forstjóra SAk á heimasíðu Sjúkrahússins. „Ég fagna því og vænti þess að næstu skref, undirbúnings og hönnunarvinna geti farið af stað strax á næsta ári. Legudeildarbygging er ekki bara mikilvæg sjúklinganna vegna heldur er hún einnig nauðsynleg til að geta boðið starfsfólki vinnuaðstöðu sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í dag og hjálpar til við að laða það að og halda í það,“ skrifar Bjarni.
Legudeildirnar 60 ára gamlar og úreltar
Eins og Vikudagur hefur áður fjallað um eru legudeildir Sjúkrahússins á Akureyri orðnar 60 ára gamlar og uppfylla ekki þau skilyrði sem gerð eru til legudeildar á sjúkrahúsum í dag með tilliti til sjúklinga, aðstandenda og starfsmanna. Plássið er búið að sprengja utan af sér og dæmi eru um að færa þurfi sjúklinga á milli deilda til að koma þeim fyrir.
Þurfa meiri fjármagn til að mæta áskorunum
Í fjármálaáætluninni kemur fram að útgjöld til reksturs sjúkrahúsþjónustu aukast um 10,6% á áætlunartímabilinu eða um 9 milljarða króna. Undir sjúkrahúsþjónustu falla framlög til Sjúkrahússins á Akureyri, Landspítala, almennrar sjúkrahúsþjónustu og erlendrar sjúkrahúsþjónustu. Þessi aukning er að jafnaði um 2% raunvöxtur á ári. „Ekki liggur fyrir fyrr en í fjárlögum ársins 2019 hvernig þessum fjárhæðum verður skipt á einstaka stofnanir. Haldi sú aukning sem verið hefur í starfsemi okkar sl. 5 ár áfram þá hef ég áhyggjur af því að áformuð raunaukning fjárframlaga dugi til að mæta þeim áskorunum sem framundan eru,“ skrifar Bjarni.
-þev