Í dag hófust framkvæmdir við gatnagerð í Holtahverfi á Húsavík þar sem PCC Seaview Residences hf áætla að byggja íbúðarhúsnæði, ellefu parhús, eins og margoft hefur verið fjallað um í Skarpi.
Daginn áður tók Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings fyrstu skóflustunguna með aðstoð frá Vilbergi Njáli Jóhannessyni frá Höfðavélunum ehf. sem er verktaki í gatnagerðinni ásamt og með fyrirtækinu GV gröfur á Akureyri. „Við erum hér að vinna fyrir Norðurþing, en PCC semur síðan um gröft á húsgrunnum, en það er búið að nefna það við okkur að við sjáum einnig um þá framkvæmd.“ Segir Vilberg. Göturnar verða full frágengnar með lögnum, umferðaskiltum og malbiki, máluðum línum og öllu tilheyrandi, samtals um 400 lengdarmetrar.
Vilberg Njáll segir ekki hafi verið samið um verklok, „en við ætlum að reyna að vera snöggir að þessu svo þetta taki ekki tíma frá öðrum verkum, en það er meira en nóg að gera hjá okkur.“
Aðspurður segir faðir hans, Jóhannes Einarsson, að þeir séu með nægan mannskap í vinnu. „Við höfum sennilega aldrei verið eins vel mannaðir og núna, erum með alveg með úrvals kalla, menn sem kunna og nenna að vinna.“
Sagði kempan Jói á gröfunni. JS