Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur stöðvað fyrirhugaðar framkvæmdir við Dalsbraut, á meðan stjórnsýslukæra sem þar var lögð fram er til meðferðar. Kæran var lögð fram vegna þeirrar ákvörðunar Bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut. Helgi Már Pálsson bæjartæknifræðingur segir að í úrskurðarorði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála komi m.a.fram að framkvæmdir sem heimilaðar voru með ákvörðun skipulagsnefndar skuli stöðvaðar á meðan kærumálið er til meðferðar hjá nefndinni. Helgi segir að málið fái flýtimeðferð hjá nefndinni en að gera megi ráð fyrir að þetta taki einhverjar vikur. Ekki verði farið af stað með framkvæmdir og að framhaldið ráðist svo af niðurstöðu nefndarinnar.
Fyrirtækið G.V. Gröfur ehf. átti lægsta tilboð í lagningu Dalsbrautar, en tilboðin voru opnuð um síðustu mánaðamót. Alls bárust þrjú tilboð í verkið og voru þau öll undir kostnaðaráætlun, sem hljóðar upp á um 72,7 milljónir króna. G.V. Gröfur buðu rúmar 53,8 milljónir króna, eða um 74% af kostnaðaráætlun. Það eru framkvæmdadeild og Norðurorka sem standa að útboðinu en um er að ræða jarðvegsskipti, yfirborðsfrágang og lagningu fráveitu-, raf- og vatnslagna í Dalsbraut og stíga milli Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar. Heildarlengd götu er um 800 m og stíga um 1.700 m. Verkið er áfangaskipt en í útboðsauglýsingu kemur fram að verkinu skuli að fullu lokið fyrir 15. september 2012.