Framkvæmdir á Bakka í stórum dráttum á áætlun

Sveitarfélagið Norðurþing stóð fyrir upplýsingafundi með hagsmunaaðilum Bakkaverkefnisins í gær miðvikudag 18. maí. Fundurinn fór fram í stjórnsýsluhúsinu á Húsavík. Farið var yfir helstu verkþætti sem tengjast iðnaðaruppbyggingu á Bakka. Fulltrúar frá PCC BakkiSilicon hf, Landsneti, Landsvirkjun og vegagerðinni sögðu frá framvindu framkvæmda á sínum verkþáttum. Það var gott hljóð í mönnum og var verktökum hrósað fyrir vel unnin störf. Framkvæmdir ganga almennt vel og eru í stórum dráttum á áætlun. Tíðin í apríl hafi þó valdið lítilsháttar töfum, sérstaklega á Þeystareykjum. Þá var ítrekað að það liggur fyrir að vegurinn og göngin í gegnum Húsavíkurhöfða þurfa að vera klár í lok ágúst á næsta ári og það er ekkert sem bendir til annars en að það gangi upp.
Þá bauð sveitarfélagið og PCC BakkiSilicon hf. fulltrúum fjölmiðla upp á rútuferð um framkvæmdasvæðið á Bakka og við Húsvíkurhöfn. /epe