Framkvæmdir á Akureyrarflugvelli ganga vel

Hafist var handa við að malbika flugbrautina á Akureyrarflugvelli í síðustu viku en fyrirtækið Hlaðbær-Colas í Hafnarfirði bauð eitt fyrirtækja í verkið á sínum tíma.  Jarðvegsvinnu er að ljúka um þessar mundir að sögn Þrastar Sívertsen byggingatæknifræðings hjá Ístak, sem er aðalverktaki við framkvæmdir vegna lengingar flugbrautarinnar.  

„Við eigum eftir ýmis konar frágangsvinnu í kringum flugbrautina og munum halda áfram okkar striki við þau verk sem eftir eru,"  segir Þröstur en gert er ráð fyrir að Ístak ljúki sínum verkefnum um miðjan júlí.  Þá eiga Flugstoðir, verkkaupinn eftir að tengja ljósabúnað og fleira. „Við byrjuðum á fullu nú í maí við flugbrautina, en við létum yfir hana mikið farg í vetur og létum hana síga.  Þetta tókst ágætlega," segir hann.  Nú eru um 25 til 30 manns á vegum Ístaks við vinnu á Akureyrarvelli og koma bæði úr hópi heimamanna og að sunnan. „Starfsmannafjöldinn mun eitthvað rokka hjá okkur, það fer eftir hvaða verk er verið að vinna hverju sinni," segir Þröstur. 

Flugbrautin hefur verið lengd um 460 metra til suðus og verður hún 2.400 metrar.  Þá hafa verið gerð öryggissvæði meðfram henni sem og einnig við suðurenda og flughlað norðan flugstöðvarbyggingar.  Gert er ráð fyrir að allri vinnu við lengingu flugbrautarinnar verði lokið í september.

Nýjast