Framkvæmdir á áætlun við Lundarskóla

Góður gangur er á framkvæmdum í Lundarskóla. Mynd/Þröstur Ernir.
Góður gangur er á framkvæmdum í Lundarskóla. Mynd/Þröstur Ernir.

Allar framkvæmdir við Lundarskóla á Akureyri eru á áætlun og mun kennsla hefjast í A-álmunni í haust. Skólinn þarf hins vegar áfram að nota Rósenborg til kennslu á unglingastigi næsta vetur en megnið af verkgreinunum fara aftur í Lundarskóla. Framkvæmdir við A-álmu skólans klárast í sumar en B-álman er í útboði og voru tilboð opnuð í síðustu viku. Áætluð verklok er sumarið 2022.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins er kostnaður við A-álmu innan áætlunar. Framkvæmdir hófust síðasta sumar vegna myglu í skólanum og var hluti skólastarfsins í kjölfarið færður í Rósenborg. Elías Gunnar Þorbjörnsson, skólastjóri Lundarskóla, segir í samtali við Vikublaðið að allir nemendur og starfsfólk ættu að hefja skólaárið 2022-2023 í Lundarskóla við Dalsbraut. Hann segir jafnframt að fyrirkomulagið í vetur hafi gengið vel.

Allir lagst á eitt

„Það hafa allir lagst á eitt í að gera það besta úr stöðunni. Starfið í Rósenborg hefur gengið mjög vel og má hrósa bæði nemendum og starfsfólki fyrir hvernig þau hafa aðlagað starfið að breyttum aðstæðum bæði er varðar flutning og svo Covid,“ segir Elías. „Aðstaðan er þrengri í Rósenborg og kennslurýmin umtalsvert minni en við Dalsbraut. Andinn í húsinu er þó góður og fannst okkur það mikilvægt að finna húsnæði þar sem allt unglingastigið gat verið saman.“

Þá hafa nemendur í Lundarskóla í Rósenborg fengið að nota mötuneytið í Brekkuskóla. „Samstarfið við Brekkuskóla hefur verið frábært og ég held að við höfum náð að gera það besta úr stöðunni,“ segir Elías.

 

 

 

 

 

 


Nýjast