Framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs fagnar ágætri afkomu Séreignardeildar

"Við getum ekki annað en fagnað þessari niðurstöðu," segir Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, en ávöxtun Séreignardeildar sjóðsins gekk mjög vel á liðnu ári.  Hann býður upp á þrjár mismunandi ávöxtunarleiðir og var ávöxtun á bilinu 25 til tæplega 28% og raunávöxtun á bilinu 7-9%  

Ástæðu þess að svo vel gekk hjá sjóðnum á síðastliðnu ári segir Kári Arnór einkum þá að Séreignardeildin átti hvorki skuldabréf á bankana né íslensk atvinnufyrirtæki, heldur eingöngu ríkisskuldabréf og leiðirnar þrjár sem sjóðurinn bauð upp á höfðu ekki gjaldeyrisvarnir.  Hann segir að menn hafi hugleitt að kaupa slíkar varnir þegar krónan fór að veikjast mjög, en sem betur fer hafi ekki orðið af því.  "Þetta er sjálfsagt einhver blanda af klókindum og heppni," segir Kári Arnór. 

Hvað svonefnda Tryggingadeild varðar segir hann að ávöxtun þeirrar leiðar hafi hrunið í kjölfar bankahrunsins í október vegna mikillar niðurfærslu á skuldabréfum banka og fyrirtækja. "Við komumst þó hjá tapi og það út af fyrir sig er ágætt," segir hann. Á sama tíma batnaði ávöxtun á Safni II og segir Kári Arnór að það sanni að gæði eigna skipti öllu máli á erfiðum tímum.  "Við þurfum að læra af þessum atburðum og munum örugglega gera það. Svo mikið er víst að þeir munu hafa í för með sér mikil áhrif á það hvernig eignum verður stýrt hér á landi á næstu árum.

Nýjast