Framkvæmdastjóri Norðlenska segir nauðsynlegt að skera upp landbúnaðarkerfið
Hann segir að gagnsætt kerfi sé lykillinn að trúverðugleika. "Kerfinu hefur verið breytt verulega á undanförnum árum, en í umræðunni megum við ekki gleyma því að allar aðrar vestrænar þjóðir styrkja sinn landbúnað verulega. Við getum ekki talað eins og allir eigi að lifa af verðbréfum og aðrar þjóðir færi okkur matvæli á silfurfati. Veruleikinn er ekki þannig."
Sigmundur segir að gangi Ísland í Evrópusambandið verði gríðarlegar breytingar á landbúnaði og hann telur að aðild komi landsbyggðinni ekki til góða þegar á heildina sé litið. "Ég held að það sé ekki ríkt í Íslendingum að lifa nánast eingöngu á styrkjum. Vonandi standa stjórnmálamenn við gefin loforð um að almenningur fái að kjósa um hugsanlega aðild og ég hef enga trú á því að landinn kjósi sambandið yfir sig."
Norðlenska er eitt stærsta og öflugasta framleiðslufyrirtæki landsins á sviði kjötvöru og með starfsemi á Akureyri, Húsavík, Höfn í Hornafirði og í Reykjavík. Starfsmenn eru að jafnaði um 200 talsins. Sigmundur segir að gert sé ráð fyrir hagnaði á þessu ári og að veltan verði hátt í 5 milljarðar króna.
„Rekstrarumhverfið í greininni hefur síður en svo verið hagfellt. Hjá sauðfjárbændum hafa nánast öll aðföng hækkað gríðarlega, nærtækast er að nefna olíuna. Flutningskostnaðurinn hefur sömuleiðis hækkað mikið og gengisskráning íslensku krónunnar hefur bitnað hart á bændum. Vaxtastigið var mjög hátt sem kom auðvitað mjög við rekstur allra og síðast en ekki síst nefni ég að hér ríkir fákeppni á smásölumarkaði. Þrjár verslanakeðjur ráða yfir 90 % af markaðnum, sem auðvitað er mikið óhagræði fyrir greinina í heild sinni."
Sigmundur segir að afurðastöðvum og kjötvinnslum eigi örugglega eftir að fækka eitthvað í framtíðinni. "Þótt Norðlenska sé eitt stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á Íslandi, teljumst við vera örfyrtæki í Evrópu. Við erum til dæmis að framleiða um 700 vörunúmer, ef við værum hins vegar í öðru Evrópulandi væru vörunúmerin líklega sjö. Hérna verðum við að nýta allt hráefni sem til fellur, sérhæfing okkar felst í því. Það er mjög svo kostnaðarsamt að uppfylla kröfurnar sem markaðurinn og hið opinbera gera til starfsemi slíkra fyrirtækja. Við hjá Norðlenska teljum okkur vera nokkuð vel sett hvað varðar evrópska staðla," segir Sigmundur.