Framkvæmdastjóraskipti hjá Íslenskum verðbréfum

Sævar Helgason hefur ákveðið að láta af starfi framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa eftir 13 ára starf og hefur Einar Ingimundarson, forstöðumaður lögfræðisviðs Íslenskra verðbréfa, verið ráðinn í hans stað. Gengið var frá framkvæmdastjóraskiptunum á fundi stjórnar Íslenskra verðbréfa fyrr í dag og tekur Einar við starfinu frá sama tíma.  

"Þetta er sameiginleg ákvörðun mín og fjölskyldu minnar og ég tilkynnti stjórn félagsins hana á mánudeginum í liðinni viku," segir Sævar Helgason. "Ég var ráðinn framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa árið 1999 og hef því gegnt starfinu í 13 ár. Á þessum tíma, sem hefur verið gríðarlega skemmtilegur en jafnframt mjög krefjandi, hef ég öðlast mikla reynslu, enda hafa verulegar breytingar átt sér stað á fjármálamarkaði frá árinu 1999. Nú finnst mér tímabært að láta gott heita og ætla að snúa mér að öðrum verkefnum. Fyrirtækið stendur vel og hefur skilað hagnaði samfellt frá árinu 2002. Eignir sem félagið stýrir fyrir hönd viðskiptavina nema nú 120 milljörðum króna. Ég tel mig því skila góðu búi og kveð félagið sáttur við mitt framlag. Sem framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með frábæru samstarfsfólki, hluthöfum og stjórn sem hafa veitt mér mikinn stuðning. Ég vil því nota tækifærið og þakka þeim sem og viðskiptavinum Íslenskra verðbréfa fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf öll þessi ár," segir Sævar. „Um leið vil ég óska Einari Ingimundarsyni eftirmanni mínum alls hins besta. Ég er þess fullviss að hann muni leggja sitt af mörkum til að gera gott fyrirtæki enn betra."

Magnús Gauti Gautason, stjórnarformaður Íslenskra verðbréfa, segir ákvörðun Sævars hafi komið stjórninni í opna skjöldu. "Það er eftirsjá að Sævari enda hefur hann unnið frábært starf í þágu félagsins. Um leið og við þökkum fyrir það viljum við óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Við kveðjum Sævar þó ekki alveg strax því hann mun verða eftirmanni sínum til halds og trausts á næstunni," segir Magnús Gauti í fréttatilkynningu.

Nýjast