Framkvæmdum lýkur í nóvember

Stefnt er á að sundlaugarsvæðið verði klárt í nóvember.
Stefnt er á að sundlaugarsvæðið verði klárt í nóvember.

Áætlað er að framkvæmdum við endurbætur á Sundlaug Akureyrar muni ljúka í nóvember. Þessa dagana er verið að flísaleggja kalda karið sem verður klárt í október. Þá er verið að slá upp fyrir veggjum við vaðlaug og verður steypt nú í vikunni. Einnig á eftir að flísaleggja pott og vaðlaugina. Ingibjörg Isaksen, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, segir verkið hafa gengið hægar en áætlað var vegna sumarfría. Þá er hönnunarvinna í gangi varðandi sundlaugargarðinn sem er önnur framkvæmd og er stefnt á að þeirri vinnu ljúki í vor.

Eins og sundlaugargestir urðu varir við var rennibrautunum lokað í viku en voru opnaðar á ný sl. miðvikudag. Að sögn Ingibjargar var ástæða lokuninnar venjubundið eftirlit.

„Það er verið að ljúka við hin ýmsu verk sem náðust ekki í sumar líkt og líma niður gúmmíhellur, laga flísar sem hafa losnað eða brotnað í lendingarlauginni auk annarra smáverka. Auk þess er verið að setja upp myndavélar í turninn og skálina,“ segir Ingibjörg.

Óljóst er hver endanlegur kostnaður verður við framkvæmdirnar en hann stendur í um 380 milljónum. 

Nýjast