Fráfarandi sveitarstjóri ekki fengið skýringu á uppsögninni

Guðmundur Jóhannsson fráfarandi sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit hefur sent íbúum sveitarfélagsins bréf, í kjölfar þess að sveitarstjórn ákvað að segja honum upp störfum í síðustu viku. Guðmundur segir í bréfinu að hann hafi ekki fengið skýringu á hvað raunverulega gerðist og hvað varð til þess að spjallfundi var breytt í sveitarstjórnarfund og á honum samþykkt tillaga um að gera við hann starfslokasamning.  

"Á þessum fundi var gögnum dreift og ýmis mál rædd sem upp komu, einhver mál voru rædd út frá óljósum heimildum og sögusögnum. Ég hef ekkert af þessum gögnum séð né fengið að tjá mig um, mér var haldið utan við og ég mátti ekki koma með mínar skýringar. Ég hafði áður en fundurinn var haldinn gert athugasemd við að boðaður yrði formlegur fundur í sveitarstjórn þar sem mín mál yrðu rædd án þess að ég fengi að svara þeim ásökunum sem á mig væru bornar. Ég fékk ekki tíma til að íhuga mína stöðu og mér voru gefnir nokkrir tímar til að svara og skilaboðin voru skýr, ég átti að segja upp störfum."

Guðmundur segir ennfremur í bréfinu, að frá því að hann var ráðinn sveitarstjóri hafi það verið einlægur vilji sinn að standa undir væntingum íbúa sveitarfélagsins og að hann hafi einsett sér að vera vinnusamur og láta verkin tala. "Ég tók við góðum rekstri og ég vissi að með mér væri hæft starfsfólk og stjórnendur, ég treysti á hjálp þeirra og naut velvilja margra í sveitarfélaginu. Ekki bar skugga á samstarf mitt við mína nánustu samstarfsmenn, en að öðrum ólöstuðum var hjálp Þórnýjar á skrifstofunni mér ómetanleg og þakka ég henni sérstaklega fyrir. Samstarf við oddvita var náið og áttum við auðvelt með að vinna saman, einnig átti ég gott samstarf við oddvita minnihluta. Það var því mikið áfall að skynja það að þeir tveir studdu mig ekki þegar á reyndi og komu mér ekki til varnar þegar að mér var sótt."

Guðmundur segir að það hafi verið ólýsanleg vonbrigði að hafa ekki átt kost á að bæta fyrir mistök þau er hann gerði í bloggfærslum við fréttir á mbl.is sem komu sveitarfélaginu ekkert við en tengdust fréttum um hrun bankanna og mótmælum sem urðu á gamlársdag við Hótel Borg. "Í þessum bloggfærslum notaði ég orð sem að sumra mati hæfa ekki sveitarstjóra og biðst ég afsökunar á þeim. Þegar ég skrifaði þessar færslur var ég greinilega ekki meðvitaður um stöðu mína, ég einfaldlega áttaði mig ekki á að ég var orðinn opinber persóna."

Guðmundur segir að þessi tími hans sem sveitarstjóri hafi verið viðburðarríkur, þar sem  hann hafi tekist á við mörg mál. Hann nefnir málefni leikskóla og grunnskóla, nettengingu til heimila sem ekki nutu háhraðatengingar, bætt GSM samband og ADSL væðingu. Hann nefnir Víga - Glúmsgleði og framkvæmdir við þjónustumiðstöð og félagsstarf aldraðra. Þá nefnir Guðmundur skipulags- og efnistökumál í sveitarfélaginu. "Eitt stærsta og sennilega flóknasta verkefnið sem ég var með í vinnslu voru reiðvegamál og hvernig hægt væri að sætta ólík sjónarmið hestamanna og landeiganda. Ég átti marga árangursríka fundi með landeigendum og hestamönnum um lausn á þessari áragömlu deilu. Ég bar þá von í brjósti að ég gæti komið reiðvegamálum framan miðbrautar í höfn fyrir lok kjörtímabilsins en raunin varð önnur. Mér var ekki treyst lengur og sagt upp störfum fyrirvaralaust."

Guðmundur endar bréf sitt til íbúa sveitarfélagsins með þessum orðum.

"Ég legg mikla áherslu á að starfsmenn sveitarinnar og kjörnir fulltrúar skilji á milli starfa sinna fyrir sveitina og einkahagsmuna. Þetta getur verið vandasamt í smáum samfélögum en er afar mikilvægt, ég bið því alla hlutaðeigandi að huga vel að þessum þáttum."

Nýjast