Í dag föstudag kl. 12.00 verða þriðju Föstudagsfreistingar Tónlistarfélagsins í Ketilhúsinu. Þetta eru hádegistónleikar og er boðið upp á súpu, brauð og kaffi frá Goya Tapas á meðan hlýtt er á líflega tóna þeirra Guido Bäumer saxófónleilkara og Aladár Rász píanóleikara. Þeir hafa starfað saman frá árinu 2001 og flytja verk eftir André Jolivet, Florent Schmitt, Alfred Desenclos og Eugène Bozza.
Aladár Rácz píanó er fæddur í Rúmeníu árið 1967. Hann stundaði fyrst nám í píanóleik við Georges Enescu tónlistarskólann í Búkarest en síðan framhaldsnám við Tónlistarháskólana í Búkarest og Búdapest. Einnig hefur Aladár tekið þátt í mörgum námskeiðum í Evrópu og haldið masterclassnámskeið fyrir píanónemendur. Hann hefur leikið á tónleikum víðsvegar um heiminn, leikið inn á geisladiska og unnið til verðlauna fyrir píanóleik í alþjóðakeppnum, m.a. á Spáni, Ítalíu og í Tékklandi. Frá árinu 1999 hefur Aladár starfað sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Húsavíkur, leikið með ýmsum kórum og söngvurum á Norður- og Austurlandi (s.s. Leikhúskórnum á Akureyri og Kammerkór Austurlands) og leikið einleik í
Salnum í Kópavogi og með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í píanókonsert nr.1 eftir Ludwig van Beethoven. Fyrir nokkrum árum lék Aladár Goldberg-tilbrigðin eftir J.S. Bach á tónleikum vítt og breytt um landið (m.a. í Salnum í Kópavogi) og fékk mikið lof fyrir leik sinn.
Guido Bäumer saxófónner frá Norður-Þýskalandi og bjó á Dalvík frá árinu 2000 til vors 2005 en hefur síðan verið búsettur í Hafnarfirði. Hann stundaði tónlistarnám í Bremen í Þýskalandi þar sem hann lauk kennaraprófum á bæði saxófón og þverflautu. Framhaldsnám stundaði Guido við Tónlistarháskólann í Basel í Sviss þar sem hann lauk einleikaraprófi með hæstu einkunn og við Bowling Green State University í Ohio í Bandaríkjunum þar sem hann lauk "Artist Certificate". Í
Sviss kenndi Guido m.a. við Tónlistarskólann í Luzern og lék á barítón-saxófón í saxófónkvartettinum "mit links". Á Íslandi hefur Guido m.a. leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput-hópnum, Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (einnig einleik í saxófónkonsert eftir J. Ibert) og haldið spunatónleika með tölvubreyttum hljóðum. Þá hefur Guido frumflutt verk eftir íslensk tónskáld. Guido kennir við skólahljómsveitir á höfuðborgarsvæðinu og við Tónlistarskólann í Kópavogi. Hann er einnig barítón-saxófónleikari Íslenska saxófónkvartettsins.