Forstjóri Byko skoðaði aðstæður á Húsavík

Húsavík. Mynd/epe
Húsavík. Mynd/epe

Eins og greint hefur verið frá er megn óánægja meðal íbúa og verktaka á Húsavík með ákvörðun Húsasmiðjunnar að loka verslun sinni í bænum um áramót.

Meðal þeirra sem mótmælt hafa ákvörðuninni er Framsýn stéttarfélag sem  hefur formlega skorað á Húsasmiðjuna að endurskoða fyrri ákvörðun um að loka versluninni um næstu áramót. Ekki er útlit fyrir að Húsasmiðjan verði við því en hefur opnað á möguleika á því að reka söluskrifstofu í bænum.

Byko skoðar sig um

Vikublaðið hafði spurnir af því að fulltrúar Byko hafi heimsótt Húsavík í síðustu viku. Aðalstein Á. Baldursson formaður Framsýnar sagði í samtali við Vikublaðið að hann hafi átt fund með forstjóra Byko ásamt öðrum fyrir skemmstu með það að markmiði að fá hann til að skoða möguleika á að hefja rekstur á Húsavík.

„Ég get staðfest það að þeir áttu fund með okkur fulltrúum Framsýnar um möguleika þess að hefja starfsemi í bænum. Fundurinn var jákvæður og fulltrúar Byko kváðust ætla að skoða möguleikana,“ sagði Aðalsteinn við Vikublaðið.

Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri Byko sagði í samtali við blaðið að það sé rétt að hann hafi fundað með Húsvíkingum í síðustu viku en tók fram að best væri að stilla væntingum í hóf.

 „Við fengum heimboð frá góðum aðilum á Húsavík. Ég þáði það en þetta var meira svona möguleikaskoðun. Fyrsti fasi skulum við segja; að koma í heimsókn, þiggja boðið og hlusta,“ segir hann og bætir við að heimsóknin hafi verið ánægjuleg.  

„Það er vissulega björt framtíð fyrir Húsvíkinga og gaman að koma og heyra framtíðarsýnina, fjölbreytileikann í atvinnugreinunum og störfum. Það er augljóslega uppbygging í íbúaþróun og fyrirsjáanleg fjölgun íbúa til lengri tíma og mikið fram undan. Mér fannst áhugavert að heyra þetta og hvað samfélagið er vel samsett að mínu mati,“ útskýrir Sigurður Brynjar og kveðst hafa skilning á því að heimfólki þyki skarð hoggið í samfélagið að missa byggingavöruverlsun úr bænum sem margir séu farnir að skilgreina sem nauðsynjaverslun á eftir matvöruverslunum.  

„Allt er þetta í lok dagsins spurning um hvort það sé grundvöllur fyrir slíkri verslun á Húsavík og í hvernig formati hún ætti að vera. Þetta eru allt spurninga sem við eigum eftir að fara í gegnum okkar megin. Og við munum gera það en það er ekki tímabært að vekja upp væntingar,“ segir forstjórinn að lokum.


Nýjast