Forslátrun hefst um miðjan ágúst hjá Norðlenska
Sama verð er til þeirra sem eru með viðskiptasamninga og annarra sem vilja slátra og kynnast fyrirtækinu. Forslátrun hefst á Húsavík í viku 33 (15. til 19. ágúst), þó með fyrirvara um að sláturloforð berist. Ekki verður slátrað með fullum afköstum á Húsavík fyrr en í fyrstu heilu viku september. Forslátrun hefst einnig á Höfn í viku 33 (15. til 19. ágúst), þó með fyrirvara um að sláturloforð berist. Haustslátrun hefst síðan með fullum afköstum á Höfn þann 20. september. Boðið er upp á forslátrun jafn snemma og raun ber vitni vegna mikillar eftirspurnar og sölu á lambakjöti. Landssamtök sauðfjárbænda hvetja bændur til þess að mæta eftirspurn með þessum hætti, sbr. frétt hér á heimasíðunni í gær. Álagsgreiðslur Norðlenska á grunnverð verða 15% í viku 33 (15. til 19. ágúst) auk þess sem Markaðsráð kindakjöts mun þá greiða 2.000 kr. fyrir hvert lamb beint til bænda, á alla gæðaflokka lambakjöts. Í viku 34 (22. til 26. ágúst) verða álagsgreiðslur Norðlenska 14% og beingreiðsla Markaðsráðsins 1.500 krónur til bænda. Frá og með viku 35 (29. ágúst til 2. september) er í gildi verðskrá Norðlenska sem birt er heimasíðu fyrirtækisins. Þá er álag Norðlenska 12%. Þá viku verður beingreiðsla Markaðsráðs kindakjöts 500 kr. fyrir hvert lamb, en fellur niður eftir það, segir á vef Norðlenska.