Forseti Íslands hóf formlega sölu Neyðarkalls björgunarsveitanna
Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hóf formlega sölu Neyðarkalls björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar í verslanamiðstöðinni Kringlunni síðdegis í dag. Fyrsta Neyðarkarlinn keypti Magnús Gunnlaugsson, sem á líf sitt björgunarsveitum að launa, eftir að bátur hans sökk norður af Akurey í mars á þessu ári. Félaga Magnúsar var einnig bjargað meðvitundarlausum og illa ofkældum úr sjónum og mátti ekki miklu muna að hann léti lífið.
Forsetinn aðstoðaði björgunarsveitafólk við söluna í góða stund og seldi gestum og gangandi í Kringlunni fjölmarga Neyðarkalla. Neyðarkallinn verður seldur um land allt nú um helgina (3.-6. nóvember). Salan hefst í dag, fimmtudag. Er þetta í sjötta sinn sem þessi fjáröflun fer fram og er hún orðin ein sú mikilvægasta fyrir björgunarsveitir landsins. Afar mikilvægt er að vel takist til með söluna í ár þar sem björgunarsveitir hafa ekki farið varhluta af þeim tekjusamdrætti sem orðið hefur víðast hvar í þjóðfélaginu undanfarin ár. Á sama tíma hafa verkefnin verið ærin. Þrjú eldgos sem eru með stærri aðgerðum björgunarsveita frá stofnun þeirra og mikil aukning í ferðamennsku eru meðal þeirra aðstæðna sem hafa valdið sífellt fleiri útköllum sjálfboðaliðanna í sveitunum.