Forsetahjónin í heimsókn á Akureyri í tilefni af Forvarnardeginum
Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff forsetafrú, komu í heimsókn til Akureyrar í morgun, í tilefni af Forvarnardeginum, sem er í dag 5. október. Það var alhvít jörð á Akureyri þegar forsetahjónin komu til bæjarins í morgun. Þau heimsækja fjóra skóla á Akureyri í tilefni dagsins, tvo grunnskóla, Giljaskóla og Lundarskóla og framhaldsskólanna tvo, MA og VMA.
Dagskrá forsetahjónanna hófst í Giljaskóla í morgun, þar sem forseti Íslands ræddi við nemendur í 9. bekk skólans um gildi forvarna og ýmislegt fleira. Nemendur leystu einnig verkefni á meðan á heimsókn forsetahjónanna stóð og svöruðu spurningum sem snerta samveru með fjölskyldu, þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi og frestun áfengisdrykkju. Sú nýlunda er nú á verkefninu að framhaldsskólarnir taka þátt í fyrsta sinn. Nemendur hafa kost á að taka þátt í myndbandasamkepppni þar sem þeir velta fyrir sér spurningunni: Hvað myndi fá þig til að fresta eða sleppa því að drekka áfengi? Einnig komu í heimsókn í Giljaskóla, þau Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri, Gunnar Gíslason fræðslustjóri, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ, Viðar Sigurjónsson sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ og Sigfús Ólafur Helgason formaður Íþróttafélagsins Þórs. Frá Giljaskóla var haldið í Lundarskóla, þaðan var farið í MA og loks heimsækja forsetahjónin VMA þegar nær dregur hádegi.