Forsala hefst í dag, miðvikudaginn 1. febrúar kl. 10.00, á áhorfendasýningu ársins; Nei ráðherra! sem flytur norður yfir heiðar í mars. Sérstakt forsölutilboð er fram á föstudag. Leiksýningin verður sýnd á Akureyri í samstarfi Menningarhússins Hofs, Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar en sýningarfjöldi er takmarkaður í Hofi vegna anna leikaranna. Þessi drepfyndni gamanleikur kemur úr smiðju Ray Cooney konungs gamanleikjanna. Hann er Íslendingum að góðu kunnur en gamanleikirnir Með vífið í lúkunum, Tveir tvöfaldir og Viltu finna milljón? hafa allir notið vinsælda hér á landi. Nei, ráðherra (Out of Order) hlaut hin eftirsóttu Olivier-verðlaun sem besti gamanleikurinn í Bretlandi þegar verkið var frumsýnt. Verkið hefur slegið í gegn víða um heim en fer nú í fyrsta skipti á íslenskar leikhúsfjalir og verður flutt í íslenskri heimfærslu Gísla Rúnars Jónssonar en hann hefur matreitt og kryddað marga af bestu gamanleikjum seinni ára hérlendis, m.a. Fló á skinni og Sex í sveit. Leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson en í aðalhlutverkum eru Guðjón Davíð Karlsson, Sigurður Sigurjónsson og Hilmar Guðjónsson.