Náttfari, einn af eikarbátum Norðursiglingar sigldi úr Húsavíkurhöfn einu sinni sem oftar í fallegu veðri fyrir skemmstu áður en fjórða Covid bylgjan skall á. Þeir 13 farþegar sem voru um borð duttu heldur betur í lukkubátinn enda skartaði Skjálfandinn sínu fegursta. Með í för voru einnig tveir aðilar frá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík og tveggja manna áhöfn.
Hvalaskoðunarvertíðin hjá Norðursiglingu hefur farið vel af stað en fyrirtækið hóf reglubundnar siglingar 1. mars. Arngrímur Arnarson, markaðsstjóri Norðursiglingar sagði í samtali við Vikublaðið að það sé full ástæða til bjartsýni þrátt fyrir óvenjulegar og erfiðar aðstæður vegna kófsins. Þá segir hann að hvalir hafi sést í öllum ferðum Norðursiglingar og sérstaklega ánægjulegt að hópur langreyða hafi verið í flóanum í mars. „Það er fremur sjaldgæf sjón að sjá þetta næststærsta dýr jarðar á Skjálfanda og óhætt að segja að það hafi glatt bæði farþega og áhöfn“.
í túrnum sem getið er hér að ofan sigldi Náttfari fram á fjölda háhyrninga sem eru einnig sjaldséðir í Skjálfandaflóa.
Farþegarnir sem komu frá hinum ýmsu þjóðlöndum voru í sjöunda himni þegar blaðamaður tók á móti þeim á bryggjunni eftir túrinn og höfðu frá mörgu skemmtilegu að segja.
Antoine, ungur maður frá Frakklandi sem var í mánaðar langri heimsókn hjá samlanda sínum búsettum hér á landi var í sjöunda himni þegar hann kom í land. Honum þótti mikið til íslenskrar náttúru koma og forréttindi að fá að skoða hana í fámenninu sem nú er á helstu ferðamannastöðum. Aðrir ferðamenn sem blaðamaður ræddi við höfðu svipaða sögu að segja og lýsa mun erfiðara ástandi heima fyrir vegna Covid-19 faraldursins.
„Ef ég á að vera hreinskilinn þá er það mikill léttir og forréttindi að koma hingað til lands. Aðstæður heima fyrir hafa verið mjög erfiðar með lokunum, útgöngubönnum og öðru slíku. Það er ótrúleg frelsistilfinning sem fylgir því að geta ferðast um þetta fallega land og skoðað alla fallegu staðina sem landið hefur upp á að bjóða,“ segir Antoine og bætir við að Íslendingar megi þakka fyrir hversu vel hefur tekist að eiga við faraldurinn. Honum þykir mikið til koma hversu skipulagðar aðgerðir eru hér á landi.
„Ég er í skýjunum að ná þetta fallegu veðri á þessum árstíma og sjá, ekki bara hvali heldur fjöldan allan af háhyrningum. Þetta var algjörlega frábært og fór fram úr öllum væntingum,“ sagði Antoine jafnframt.