Formaður skólanefndar segir af sér og segir skilið við L-listann

Sigurveig Bergsteinsdóttir formaður skólanefndar Akureyrar hefur sagt af sér formennsku í nefndinni og jafnframt sagt skilið við L-listann, lista fólksins á Akureyri. Sigurveig hefur starfað lengi með L-listanum en ástæða þess að hún hættir er sú, að hún er ósátt við að ákveðið hafi verið að endurskoða fyrirhugaðar breytingar á morgunverði leikskólabarna og að kynningarfundi vegna málsins, sem átti að vera í gærkvöld, hafi verið aflýst án þess að rætt hafi verið við hana um málið.

“Ég fékk þessar fréttir um að endurskoða ætti fyrirhugaðar breytingar og afboðun fundarins, í fréttamiðlum í gær. Þetta var ekki gert í samráði við mig og ég fékk ekki að vita af þessu áður en fréttatilkynningin var send út. Þetta eru vinnubrögðin í L-listanum, við þau er ég ósátt og get því ekki starfað áfram á þeim forsendum. Ég sagði af mér formennsku í skólanefnd í morgun og hef jafnframt sagt skilið við L-listann,” sagði Sigurveig. Hún sagðist ekki hafa átt von á því að eiga upplifa þetta eftir áralangt starf í L-listanum. “Ég hef ekki fengið nein viðbrögð frá forystumönnum L-listans í dag vegna þessarar ákvörðunar minnar.”

Bæjaryfirvöld sendu frá sér fréttatilkynningu í gær, þar sem sagði m.a. að vegna fjölda athugasemda frá foreldrum hafi Akureyrarbær ákveðið að endurskoða fyrirhugaðar breytingar á morgunverði leikskólabarna á Akureyri. Þær komi því ekki til framkvæmda í byrjun næsta árs eins og gert var ráð fyrir. Jafnframt var kynningarfundi um málið, sem átti að halda í gærkvöld, aflýst.

Nýjast