Forgangsmál að ná til hóps sem glímir við sárafátækt

Þeim sem óskað hafa eftir fjárhagsaðstoð undanfarna mánuði hefur fjölgað, sem að hluta til  má helst…
Þeim sem óskað hafa eftir fjárhagsaðstoð undanfarna mánuði hefur fjölgað, sem að hluta til má helst rekja til fjölgunar í hópi flóttafólks.

Hulda Elma Eysteinsdóttir formaður Velferðarráðs segir að eitt fyrsta verkefni ráðsins hafi verið að fela sviðsstjóra velferðarsviðs að hefja vinnu við að greina umfang sárafátæktar á Akureyri. Gert er ráð fyrir að á næsta fundi ráðsins verði lagt fram minnisblað um stöðuna.

 „Þessi vinna er í fullum gangi og við gerum okkur vonir um að einhver mynd verði komin á stöðuna áður en langt um líður. Það er í mínum huga forgangsmál að við náum til þessa hóps. Við sem samfélag eigum ávallt að rýna þær leiðir sem við höfum til að koma til móts við þá hópa sem bágust hafa kjörin og huga m.a. að því að lækka álögur á þá sem þurfa á því að halda frekar en þvert á alla hópa,“ segir Hulda Elma.

 Fleiri óska eftir fjárhagsaðstoð

 Hún segir að þeim sem óskað hafa eftir fjárhagsaðstoð undanfarna mánuði hafi fjölgað, en að má helst rekja til fjölgunar í hópi flóttafólks. „Fjárhagsaðstoð er fyrst og fremst hugsuð til þess að grípa fólk í neyð og sem betur fer þurfa fæstir að reiða sig á þá aðstoð til lengri tíma, meðaltalið er um þrír mánuðir.“ 

Hulda Elma segir mikilvægt að vinna greininguna hratt svo hægt verði hið fyrsta að gípa þá sem höllustum fæti standa.


Athugasemdir

Nýjast