Fordæmalaus halli á rekstri Akureyrarbæjar

Akureyri. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.
Akureyri. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2021 var lögð fram í bæjarráði nýverið og jafnframt var lögð fram þriggja ára áætlun áranna 2022-2024. Í tilkynningu segir að velferð og fræðslumál verði í forgangi. Framtíðarsýn bæjarstjórnar til næstu 5 ára felst í að rekstur Akureyrarbæjar verði sjálfbær, að sveitarfélagið verði þekkt fyrir framúrskarandi skóla, lífsgæði og góða þjónustu með áherslu á stafrænar lausnir og íbúasamráð. Einnig að samkeppnishæfni sveitarfélagsins leiði til fjölgunar bæjarbúa og aukinna atvinnutækifæra. Þá er bæjarstjórn sammála um að standa sérstakan vörð um viðkvæmustu hópa samfélagsins og að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang. Í ljósi aðstæðna telur bæjarstjórn rétt í fyrstu að grípa til tiltölulega mildra aðgerða og verja störf eins og kostur er. Markmiðið sé að brúa dýpstu kreppuna þannig að samfélagið allt geti blásið til sóknar samhliða því sem faraldrinum slotar.

Fjárhagsáætlunin fordæmalaus

Þá segir ennfremur að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2021 sé fordæmalaus. Aldrei áður hefur verið gert ráð fyrir viðlíka rekstrarhalla en áætlað er að hann verði ríflega einn milljarður króna. Hluta þess má rekja til halla á málaflokki fatlaðra sem nemur um 500 milljónum króna. Við gerð fjárhagsáætlunar er lögð sérstök áhersla á fræðslumál og velferðarþjónustu og segir að þannig sé hugað að viðkvæmustu hópum samfélagsins sem og börnum og ungmennum. Lagt er upp með hóflega hækkun á gjaldskrám, alla jafna um 2,5%. Launakostnaður bæjarsjóðs mun hækka um rúmlega 700 milljónir á næsta ári vegna kjarasamningsbundinna hækkana, útsvarstekjur hækka þó aðeins um 300 milljónir króna. Óhjákvæmilegt sé að bregðast við og því er lagt upp með 2,5% hagræðingu í launakostnaði. Fasteignaskatts- og útsvarsprósenta verða óbreyttar á milli ára. Sú ákvörðun sem skilar mestri hagræðingu í fjárhagsáætlun 2021 er að rekstur Öldrunarheimila Akureyrarbæjar færist á forræði ríkisins, en á þessu ári verður framlag Akureyrarbæjar vegna rekstrar Öldrunarheimila um 500 milljónir króna.

Framkvæmdir á næstu árum

Horft er til mikilla framkvæmda á næstu árum, en framkvæmdaáætlun samstæðunnar nemur 4,1 milljarði króna árið 2021. Stærstu framkvæmdirnar eru við endurbyggingu Lundarskóla og nýbyggingu leikskólans Klappa sem tekur til starfa næsta haust. Þá verður hægt að bjóða börnum allt niður í 12 mánaða aldur leikskóladvöl á verði sambærilegu við þjónustu dagforeldra. Ákveðið hefur verið að ráðast í viðbyggingu við Ráðhúsið á næstu árum og sameina stjórnsýslu sveitarfélagsins á einum stað. Þá verður sérstök áhersla lögð á skipulagsmál til þess að skapa farveg til uppbyggingar og er skipulag miðbæjarins þar í forgangi.


Athugasemdir

Nýjast