Fólksfækkun í Norðurþingi í fyrra

Í Norðurþingi fækkaði mest á Húsavík á síðasta ári. Mynd: Gaukur Hjartarson.
Í Norðurþingi fækkaði mest á Húsavík á síðasta ári. Mynd: Gaukur Hjartarson.

Fyrrum bæjarfulltrúi, Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson, vakti athygli á því eftir að hafa rennt yfir nýlegar tölur Hagstofunnar um mannfjölda á landinu, að enn hefur fækkað  í sveitarfélaginu Norðurþingi milli ára.

„Það búa 16 færri í sveitarfélaginu en á sama tíma í fyrra. Frá stofnun sveitarfélagsins árið 2006 hefur einungis einu sinni fjölgað á milli ára, en það var í kjölfar hrunsins árið 2008. Sú fjölgun núllaðist út og meira en það árið 2010. Á þessum tíu árum um það bil sem sveitarfélagið hefur verið til, var fækkunin framan af mest á  öðrum stöðum í sveitarfélaginu en Húsavík. Íbúatala þar hélst óverulega breytt oft á tíðum (en yfirleitt þó lítilsháttar fækkun).

Það hefur breyst. Á Húsavík fækkar um 23 íbúa frá því í fyrra. Húsavík á því alla fækkunina í sveitarfélaginu og meira til. Það fækkar líka um nokkra íbúa á Kópaskeri en fjölgar um 17 íbúa á Raufarhöfn, nokkuð sem kemur kannski einhverjum á óvart.

Allt eru þetta lítilsháttar sveiflur sem eru á milli ára en breyta ekki stóru myndinni. Okkur er að fækka.“ Ritaði Aðalsteinn Jóhannes á facebook síðu sína.

Það er hinsvegar ljóst að fólki á svæðinu hefur fjölgað mjög það sem af er árinu 2016 vegna gríðarlegra umsvifa, en að vísu fæst af því  sest hér að til frambúðar. En margvísleg teikn um slíkt eru hinsvegar á lofti. JS

 

 

Nýjast