Fólk nýti sín gjafabréf og inneignanótur

Brynhildur Pétursdóttir starfsmaður Neytendasamtakanna segir að það sé nóg að gera hjá starfsfólki samtakanna þessa daga, enda séu margar spurningar sem brenni á fólki. "Það er kannski ekki svo margt sem neytendur geta gert en þó viljum við ráðleggja fólki að nota þau gjafabréf og inneignanótur sem það kann að eiga."  

"Þessi ráðlegging okkar gildir alltaf enda fáum við of mörg mál sem snúa að útrunnum gjafabréfum, sem seljendur neita að taka við, auk þess sem andvirði inneignanótu og gjafabréfa rýrnar hratt um þessar mundir. Þá er auðvitað eitthvað um að þessir pappírar hreinlega týnist," segir Brynhildur.

Hún segir rétt að ítreka þetta nú þar sem raunveruleg hætta sé á því að einhverjir seljendur verði gjaldþrota og þá lendi krafa neytanda nær alltaf aftast í bunkanum. "Verðlag hækkar einnig hratt þessa dagana og því eiga neytendur að vera vel á varðbergi. Við fáum margar ábendingar um það að seljendur hækki verð á gamalli vöru þegar ný sending kemur í hús. Þetta hefur eflaust alltaf verið gert en verður mjög áberandi þegar verðmunur er jafnvel fleiri þúsund krónur á nýju og gömlu vörunni."

Brynhildur fékk nýlega ábendingu frá konu sem ætlaði að kaupa sér úlpu, sem hafði hækkaði um 4.000 krónur á fjórum dögum. Gömlu úlpurnar sem voru í verlsuninni þegar hún fór fyrst á stúfanna voru allar komnar á nýja verðið. "Konan hætti við kaupin og það er auðvitað eitthvað sem seljendur hætta á ef þeir ofbjóða neytendum," sagði Brynhildur.

Nýjast