Borið hefur á því að fólk losi sig við ketti og kettlinga í hestahúsahverfi Akureyrar. Bærinn er nú í átaki við að losa hestamenn við kettina sem eru bæði grimmir og svangir enda ekkert fyrir þá að hafa í hesthúsunum. Hestamenn í hesthúsahverfinu Breiðholti á Akureyri hafa orðið varir við marga ketti í hesthúsunum nú í haust. Að sögn Jóns Birgis Gunnlaugssonar, forstöðumanns umhverfismála hjá Akureyrarbæ, eru kettirnir grindhoraðir og viðskotaillir.
Við höfum fengið vitneskju um það að fólk hafi verið að losa sig við kettlinga og ketti í hesthúsahverfum bæjarins og Kjarnaskógi, segir Jón Birgir. Eins og staðan er í dag þá erum við í smá aðgerðum í öðru hesthúsahverfi bæjarins og höfum á tveimur sólarhringum tekið 12 kettlinga og ketti." Að sögn Jóns Birgis er um töluverðan kostnað fyrir bæjarfélagið að ræða því að bærinn borgar fyrir aflífun á köttunum. Sjálfur skilur hann ekki hvernig fólki dettur í hug að losa sig við dýrin með því að setja þau á guð og gaddinn. Þetta er hrein og klár mannvonska að fara svona með dýrin. Þau hafa ekkert að borða í hesthúsahverfunum og þeir kettir sem við höfum verið að taka núna hafa verið mjög svangir og grimmir. Þetta kemur fram á ruv.is.