Fóðurverksmiðjan Laxá hóf útflutning til Færeyja á ný

„Það var mjög góður rekstrarárangur hjá okkur á liðnu ári, en eins og hjá öðrum fyrirtækjum þá eru fjármagnsliðirnir erfiðir. En við erum ánægð með að þrátt fyrir tap á þeim vettvangi komum við út í örlitlum plús, það er mjög jákvætt miðað við þær hrakfarir sem urðu í efnahagslífinu á síðasta ári," segir Gunnar Örn Kristjánsson framkvæmdastjóri Fóðurverksmiðjunnar Laxár. Aðalfundur félagsins var haldinn í gær. Á liðnu ári hófst á ný eftir nokkurt hlé útflutningur á fóðri til Færeyja og nam hann um 2000 tonnum.

„Við stefnum að því að auka útflutning á þessu ári og útlitið er nokkuð bjart,“ segir Gunnar Örn. Útflutningur vegur upp á móti minnkandi innanlandsmarkaði, en á síðastliðnu ári var öllu sjókvíaeldi hætt hér á landi. „Við náum að fylla upp í framleiðslugetuna með því að selja til Færeyja og það er mjög gott,“ segir Gunnar Örn. Tvær stöðvar eru nú í landinu sem stunda laxeldi en bleikjueldi hér á landi hefur aukist á liðnum árum. Brim hætti þorskeldi í Eyjafirði í febrúar sl. og segir Gunnar Örn vissulega bagalegt að missa stóran viðskiptavin, en á móti kemur að Gunnvör á Ísafirði keypti fisk sem ekki var slátrað, þ.e. minni fisk úr kvíum Brims og flutti vestur. „Þeir draga vagninn núna í þorskeldinu. Við erum sannfærð um að þorskeldi mun verða ágætis atvinnugrein hér á landi, en ekki eins fljótt og menn vonuð,“ segir Gunnar Örn. Félagið er einnig í þróunarstarfi og nú er framleitt í verksmiðju Laxár í Krossanesi sérhannað fóður á markað í Noregi en þar er það notað í þorskeldi. Vænta menn þess að aukning geti einnig orðið í útflutningi þangað. Alls starfa átta manns hjá Laxá, þar af sex í verksmiðju.

Nýjast