Föðmuðu skólann sinn í tilefni af Degi gegn einelti
Nemendur og starfsfólk Glerárskóla komu saman á skólalóðinni í morgun kl. 9.00, mynduðu hring utan um skólann með því að haldast í hendur og föðmuðu hann. Þetta var gert í tilefni af Degi gegn einelti, sem er í dag, 8. nóvember. Ekki dugði að faðma einungis sjálfa skólabygginguna, því íþróttahúsið og sundlaugin eru sambyggð henni og því þurfti hópurinn að teygja vel á sér. Allt gekk þó fljótt og vel fyrir sig. Í tilefni dagsins verður undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti.
Forsætisráðherra er verndari átaksins og munu velferðarráðherra, fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra undirrita sáttmálann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ennfremur eru fjöldi félaga og samtaka aðilar að samningnum. Einelti spyr ekki um aldur, þjóðfélagshópa eða kyn og það þrífst einfaldlega allsstaðar þar sem það er látið viðgangast. Ábyrgð okkar allra er því mikil og það er í okkar höndum að vinna bug á þessu þjóðfélagsmeini. Það er ekki flókið ef allir taka höndum saman og sannmælast um ákveðna sátt, þjóðarsáttmála um jákvæð samskipti, sagði Árni Guðmundsson verkefnastjóri verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti, í grein í Vikudegi í síðustu viku. Jafnframt verður opnuð í dag heimasíðan www.gegneinelti.is og þar gefst fólki kostur á að undirrita þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti.
Í dag, 8. nóvember, verður brugðið út af vananum í Háskólanum á Akureyri með hringingu Íslandsklukkunnar en henni er venjulega aðeins hringt í upphafi skólaársins og 1. desember. Dagurinn í dag er tileinkaður baráttunni gegn ofbeldi og eru landsmenn hvattir til að hringja bjöllum til að vekja athygli á málstaðnum kl. 13:00 í dag. Þá munu m.a. kirkjuklukkur hljóma og skipaflotinn þeyta lúðra. Íslandsklukkunni verður hringt 10 sinnum kl. 13:00 en rektor HA mun sjá um að hringja bjöllunni og eru allir velkomnir.