"Ég held að það sé ekki vænlegt, því að það skiptir svo miklu máli að nýta allt landið. Það verður því að finna einhverja leið varðandi flutningskostnaðinn og þar horfi ég á flutningsjöfnun. Það eru fordæmi fyrir því að gerðar séu undanþágur varðandi einstaka mál" Gunnlaugur Eiðsson sagði í frétt í Vikudegi nýlega að flutningskostnaðurinn væri það mikil að framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni væru farin að horfa til þess að flytja starfsemi sína suður, þar sem um 80% af markaðnum er. Aðspurður um það mál sagði Sigmundur að flutningskostnaðurinn muni ekki hverfa þótt fyrirtæki séu flutt suður. "Halda menn að það sé ódýrara að flytja skepnurnar á fæti suður til Reykjavíkur, með beinum, innyflun og öðru tilheyrandi, heldur en að slátra hér og flytja afurðirnar suður? Sá viðbótarkostnaður myndi að mestu leyti lenda á bændum og það er kostnaður þeir sem standa engann veginn undir. Þá yrði kostnaður við förgum úrgangs hærri ef flytja ætti skepnurnar lifandi suður."
Sigmundur segir að þetta snúi allt öðruvísi t.d. gagnvart gos og bjórframleiðslu. "Það er krani í Reykjavík og krani á Akureyri og því sparast umtalsverður flutningskostnaður að vera með slíka framleiðslu sem næst stærsta markaðssvæðinu. Það gerist hins vegar ekki í kjötframleiðslunni þar sem skepnurnar eru aldar upp út um allt land."
Erfiðar rekstraraðstæður
Sigmundur segir að rekstraraðstæður íslensks atvinnulífs séu og hafi á undanförnum mánuðum verið með öllu óviðunandi. Stjórnendur fyrirtækja í landinu hafi ítrekað sagt að atvinnulífinu sé að blæða út. "Atvinnulífinu er að blæða út og það gerist hratt þessa dagana. Það þolir ekkert íslenskt fyrirtæki til lengdar vaxtastig eins og atvinnulífið hefur mátt búa við undanfarna mánuði. Við erum komin út á ystu nöf í þessum efnum og hvert fyrirtækið á fætur öðru er að fara fram af brúninni. Þetta er dauðans alvara. Það verður að lækka vextina strax og það umtalsvert. Annars er mikil hætta á enn meira hruni en hér er þegar orðið," segir Sigmundur.