Flutningaskipið Axel tók niðri á sandrifi við Sandgerði

Flutningaskipið Axel við bryggju á Akureyri.
Flutningaskipið Axel við bryggju á Akureyri.

Flutningaskipið Axel, sem er í eigu Dregg Shipping í Færeyjum, tók niðri á sandrifi þegar það var á leið úr Sandgerðishöfn um klukkan tvö í nótt. Bátur frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og togbátur drógu skipið á flot og var það laust um klukkan fjögur. Axel sigldi undir eigin vélarafli til Helguvíkur þar sem kafari kannaði hvort skemmdir hafi orðið á botni skipsins.

Bjarni Sigurðsson framkvæmdastjóri Dregg Shipping sagði nú fyrir stundu, að kafari hefði tekið myndbandsupptöku af botni skipsins, sem þeir væru að fara að skoða. Hann sagði að samkvæmt upplýsingum kafarans væri ekki neinar skemmdir að sjá, það kæmi þó betur í ljós á myndbandinu. Flutningaskipið Axel var með fullfermi og á leið til Danmerkur, þegar óhappið varð en gott veður var á vettvangi. Bjarni vonast til að skipið geti haldið sinni för áfram sem fyrst. Í áhöfn eru 11 manns. Flutningaskipið Axel var áður í eigu Dregg Shipping á Akureyri.

Nýjast