Greiðar samgöngur til Reykjavíkur eru mikilvægar samfélaginu á Akureyrarsvæðinu. Sama má segja um aðrar landsbyggðir. Flugið er hluti af þessum samgöngum. Ef flugvöllurinn verður tekinn úr Vatnsmýrinni þarf fyrst að finna honum annan stað sem tryggir að þessi þáttur samgangna til og frá höfuðborginni versni ekki að ráði. Aðstæður á Hólmsheiði virðast ekki nægjanlega góðar og Keflavík er of langt í burtu frá Reykjavík. Ef innanlandsflug yrði rekið frá Keflavík yrði umtalsverð sóun í akstri og viðbótarfluglengd.
Hvaða kostir eru þá eftir? Vandamálið við flugvallarumræðuna er að ekki hefur verið gerð fullnægjandi skoðun á þeim. Umræðan hefur nær eingöngu snúist um hvort flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni eða fari, bara eitthvað. Ýmsar útfærslur eru til sem losa Vatnsmýrina við flugvöll en tryggja samt sem áður jafn góðar samgöngur og nú. Flugvöllur á Bessastaðanesi eða á Lönguskerjum eru dæmi um þetta.
Hér verður sett fram ein leið sem byggir á því að færa flugvöllinn í áföngum úr Vatnsmýrinni út í sjó. Þessa útfærslu má sjá á fimm eftirfylgjandi myndum.
Á mynd 1 má sjá flugvöllinn eins og hann er nú. Flugbrautirnar eru 1,5 og 1,7 km langar frá enda til enda malbiks (flugtæknilega eru þær styttri).
Í fyrsta áfanga (mynd 2) yrði norður-suðurbrautin (N-S) stytt niður í 1,3 km en austur-vesturbrautin (A-V) lengd í 1,8 km út í sjó og yrði þar með langa braut flugvallarins. Þetta þýddi að oftast yrði notast við hana en sjaldnar við N-S brautina. Við þessa breytingu þyrfti að tengja Skildinganeshverfið með vegi til austurs að HR sem færi fyrir sunnan endann á N-S brautinni eða jafnvel með undirgöngum undir löngu brautina sem þó er líklega dýrari lausn.
Í öðrum áfanga (mynd 3) yrði N-S brautin tekin og færð út í sjó fyrir vestan Skildinganes en yrði áfram um 1,3 km (gæti þó verið lengri). Brautin yrði heldur þverstæðari en áður á A-V brautina. Við þetta losnaði stærsti hluti Vatnsmýrarinnar. Þessi áfangi er stærstur af öllum í ferlinu. Sjófyllingar sem þessar er hægt að gera á löngum tíma með efni sem fellur til víða um borgina. Að megninu til yrði þó þessi landfylling væntanlega gerð með sanddæluskipum.
Í þriðja áfanga (mynd 4) yrði A-V brautin framlengd til vesturs eins langt og hægt er án þess að tenging rofnaði við núverandi flughlöð. Þessa framlengingu er í sjálfu sér hægt að gera í fleirum en einum áfanga. Eftir þetta er flugvöllurinn að mestu farinn úr Vatnsmýrinni.
Í fjórða áfanga yrði flugstöð og flughlöð flutt frá núverandi stað til vesturs. Á mynd 5 er miðað við svæðið suðvestan við skurðpunkt flugbrautanna en hér er spurning hvað er heppilegast m.a. út frá seltu. Ef útfærslan yrði þessi þyrfti undirgöng undir aðra flugbrautina til að komast að svæðinu.
Einn helsti kostur þessarar leiðar er að hægt er að færa flugvöllinn í áföngum á mörgum árum. Margir aðrir ótvíræðir kostir eru við þessa framkvæmd. En það eru einnig ókostir. Umfjöllun um þá verður að bíða betri tíma.
Jón Þorvaldur Heiðarsson
Höfundur er lektor og skipar 6. sæti á lista BF á Akureyri.