Flugvöllurinn á hvergi annars staðar að vera en í Vatnsmýri
Kristján segir að í sínum huga séu einungs tveir valkostir í stöðunni varðandi innanlandsflug, að það verði í Vatnsmýri svo sem verið hefur og gera megi þar einhverjar breytingar en hinn kosturinn sé að flytja innanlandsflug til Keflavíkur. „Verði það gert er alveg ljóst að það deyr í leiðinni," segir hann, enda verði farþegar ekki tilbúnir til að bæta klukkutíma ferðalagi milli Keflavíkur og Reykjavíkur við leið sína.
Uppbygging flugvallar fyrir innanlandsflug á Hólmsheiði segir hann draumóra eina, kostnaður við slíka uppbyggingu muni kosta 35 til 40 milljarða sem sé alltof dýr framkvæmd. Flugskilyrði á heiðinni séu einnig með öðrum og lakari hætti en í Vatnsmýri. „Þannig að það er bara rugl að flytja flugið þangað," segir hann. Kristján var ósáttur á sínum tíma þegar áform um uppbyggingu samgöngumiðstöðvar í Reykjavík voru slegin af. Hugur hafi ekki fylgt máli hjá borgaryfirvöldum sem m.a. svikust um að auglýsa nýtt skipulag vegna miðstöðvarinnar. Það mál sé ein samfelld leiðinda sogarsaga.
Þá bendir Kristján á að ríkið eigi töluverðan hluta lands í Vatnsmýri, það sé ekki eingöngu í eigu Reykjavíkurborgar. Hann veltir fyrir sér hvort ríkið ætli sér í samningamakki við borgina um flugvöllinn að afsala sér landi sínu. „Óvissan í þessu máli um Reykjavíkurflugvöll er verst, hún veldur því að eðlileg flugstarfsemi nær ekki að þróast hér á landi," segir Kristján.