Flugsafn Íslands fékk 500.000 úr Safnasjóði

Úr Flugsafni Íslands. Myndin er fengin af vef safnsins
Úr Flugsafni Íslands. Myndin er fengin af vef safnsins

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur úthlutað úr Safnasjóði 2016 að fenginni umsögn safnaráðs, alls 108,4 millj. kr. Af þeirri upphæð renna 78,8 millj. kr. til einstakra verkefna en tæpar 30 millj. kr. í rekstrarstyrki til viðurkenndra safna um land allt.

Flugsafn Íslands á Akureyri er eitt þessara safna og fékk úthlutað 500.000. kr. í styrk  fyrir verkefnið "Flugsagan í formi margmiðlunar". Til stendur að setja upp stóra skjái með myndefni. „Þetta er búið að vera gamall draumur hjá okkur að geta sett upp svona 2-3 stöðvar þar sem fólk getur stoppað og séð gamlar ljósmyndir með skýringum rúlla og gamlar kvikmyndir eða vídeó í gegnum sögu flugsins,“ Segir Gestur Einar Jónasson framkvæmdastjóri Flugsafns Íslands í stuttu spjalli við dagskrain.is.

Þá útlistaði Gestur Einar áformum um að setja upp snertiskjái þar sem hægt verður að fletta upp á ýmsum upplýsingum og fróðleik um flugið. Gestur Einar telur ekki að margmiðlunarstöðvarnar verði komnar upp fyrir sumarvertíðina en segir að þess verði þó ekki langt að bíða. /epe

Nýjast