Flug frá Akureyri til Kaupmannahafnar fellt niður

Iceland Express hefur ákveðið að fella niður flug frá Akureyri til Kaupmannahafnar föstudaginn 28. ágúst nk. Samkvæmt upplýsingum frá Kristínu Þorsteinsdóttur upplýsingafulltrúa félagsins var það gert til að koma flugi frá Akureyri til Tenerife fyrir.  

Farþegarnir sem áttu pantað í umrætt flug fengu að vita af þessari breytingu með rúmlega hálfs mánaðar fyrirvara. Þeir eiga þess kost að fá farmiða sinn endurgreiddan, þeir geta flogið þennan dag með félaginu frá Keflavík, eða gátu flogið frá Akureyri í gær, mánudaginn 24. ágúst eða mánudaginn 31. ágúst.

Samkvæmt upplýsingum Kristínar, hefur nýtingin á þessu flugi frá Akureyri til Kaupmannahafnar verið heldur verri í sumar en í fyrrasumar. Hins vegar hefur erlendum ferðamönnum á leið til landsins fjölgað á milli ára. Ráðgert er framhald verði beinu flugi milli Akureyrar og Kaupmannahafnar næsta sumar.

Nýjast