Flottur vetur framundan og spenningur í fólki

Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli er bjartsýnn á góðan skíðavetur á Akureyri, þrátt fyrir hlýindin þessa dagana. Ekki hefur enn verið hægt að hefja snjóframleiðslu en á dögunum var skíðagöngubrautin opnuð, eftir að það snjóðaði nokkuð í fjallinu. Sala á árskortum er í fullum gangi og gengur nokkuð vel, að sögn Guðmundar.
Þetta fer oft rólega af stað en síðustu dagana sem tilboðið er í gangi kemur mikill kippur í söluna. Þegar svo kemur snjór og menn sjá að þetta er að fara að gerast eykst salan einnig, eins og margir héldu á dögunum þegar snjórinn kom og skíðagöngubrautin var opnuð, sagði Guðmundur.
Hann sagði að nú væri aðeins smá föl í fjallinu en það væri nú þannig að eftir því sem það snjóðaði meira í nóvember, því minna snjóðaði eftir áramót. Það er því betra að fá hláku í nóvember og snjókomu í febrúar. Þetta er ekki vísindalega sannað en sagan segir okkur þetta. Það snjóaði mest 13. nóvember í fyrra og svo 7. janúar en þar fyrir utan snjóaði voðalega lítið. Þannig að við erum ekkert að fara á límingunum. Það sem er óvenjulegt núna er hversu hlýtt er og við hefðum átt að vera búin að fá frostakafla í einhverja daga.
Guðmundur segir að það sé allt klárt í fjallinu og aðeins vanti snjóinn. Frá því að snjóframleiðslan hófst árið 2005, hafi skíðasvæðið verið opnað í kringum 25. nóvember. Ég held að það sé flottur vetur framundan, enda er mikill spenningur í fólki. Það er að velta fyrir sér vetrarfríunum í skólunum og þá er svolítið um að ferðaskrifstofur séu að hringja fyrir útlendinga. Það er því eitt og annað í gangi, sagði Guðmundur.