Flökkulíf

Svavar Alfreð Jónsson
Svavar Alfreð Jónsson

Svavar Alfreð Jónsson skrifar

Síðustu sumur höfum við hjónin ferðast um landið í ferðavögnum, notið fjölbreyttrar náttúru og þeirrar vönduðu aðstöðu sem komið hefur verið upp fyrir ferðafuður, innlendar sem erlendar. 

Ísland hefur upp á ótalmargt fleira að bjóða en tilkomumikil fjöll, syngjandi fossa, hvæsandi hveri og ævintýralegar gönguleiðir um öræfi og eyðibyggðir. Þar eru frábærar sundlaugar nánast í hverri sveit og munaðarfull heilsuböð fyrirfinnast á öllum landshornum.  

Ég fæ vatn í munninn þegar ég minnist veitingastaðanna í sveitum, bæjum og þorpum.  

Hafið þið smakkað smjörsteiktu gellurnar á Café Riis á Hólmavík? Hafið þið pantað ykkur fjögurra rétta óvissuseðilinn með allskonar góðgæti úr matarkistu Austurlands á Nielsen á Egilsstöðum? Hafið þið gætt ykkur á nýveiddu sjávarfangi í Tjöruhúsinu á Ísafirði?  

Nýlega fékk ég mér breiðfirska bláskel með frönskum á Narfeyrarstofu á Stykkishólmi. Hvergi hef ég fengið betri skelfisk og hef þó víða snætt slíkt ljúfmeti. 

Flökkulífið er indælt. Í því á maður hvergi heima og er alls staðar aðkomumaður. Og um leið á flökkufólkið heima hvar sem það er statt. 

Við þurfum ekki að fara langt til að víkka sjóndeildarhringinn. Þau sem ferðast um Ísland læra að elska landið sitt og blessast jafnframt af því að landið hefur opnað sig fyrir auðgandi áhrifum víðsvegar að úr veröldinni. 

 


Athugasemdir

Nýjast