Flókið að fella há og stór tré inni í miðju íbúðarhverfi

Jón Heiðar Rúnarsson eigandi Skógarmanna sem hefur sérhæft sig í að fella tré við erfiðar og flóknar…
Jón Heiðar Rúnarsson eigandi Skógarmanna sem hefur sérhæft sig í að fella tré við erfiðar og flóknar aðstæður, m.a. inni í íbúðarhverfum. Myndir: MÞÞ

mth@vikubladid.is

„Það getur verið mjög vandasamt að fella tré í görðum eða við hús eða önnur mannvirki,“ segir Jón Heiðar Rúnarsson sem á félagið Skógarmenn ehf. Hann býður upp á margvíslega þjónustu í tengslum við trjávinnu en fyrirtækið hefur hin síðari ár sérhæft sig í að fella tré við erfiðar aðstæður þar sem aðgengi er erfitt eða flókið á einhvern hátt að fella trén.

Jón Heiðar segir að mikið sé að gera og allt upp í fimm starfsmenn að störfum þegar mest er. Einyrkjar eru margir í skógarbransanum og hóa þeir hver í annan þegar sinna þarf stórum verkefnum. Mikið er að gera í grisjun og eins við trjáfellingar.  „Það hefur sem betur fer orðið vakning í því að grisja skóga og skógarreiti, ekki síður en að slá gras og klippa runna, en í eina tíð var lítið verið að velta því fyrir sér.  Þannig að víða þarf að taka til hendinni og verkefnin eru fjölmörg,“ segir Jón Heiðar.

Hann segir að við trjáfellingar við erfiðar aðstæður hafi starfsmenn komið sér upp bæði góðri þekkingu og búnaði til að vera sem best í stakk búin til að taka slík verkefni að sér. „Við náum að blanda saman við skógarhöggsreynsluna mismunandi menntun og sérhæfingu, allt frá skógfræðinámi til skyndihjálpar og þá búum við yfir þekkingu og reynslu í klifri og  línubjörgun,“ segir hann en Jón Heiðar hefur undanfarin ár annast námskeið fyrir Landsbjörg í fjallamennsku og fjallaklifri.

 Þarf að hugsa vandlega áður en hafist er handa

Skógarmenn

 

Magnús Arturo vinnur með 3 línukerfi. Tvö kerfi eru til að tryggja klifrarann og hjálpa honum að stilla sig af við vinnuna. Þriðja kerfið er til að slaka niður bútum af trénu sem ekki má láta falla niður. Tréð var í garði við Hamarstíg á Akureyri.

Hann segir að færst hafi í vöx að félagið taki að sér verkefni við að fjarlæga stór tré úr görðum í þéttbýli. „Við erum talsvert í erfiðum og flóknum trjáfellingum, þar sem allt þarf að hugsa út vandlega áður en hafist er handa,“ segir hann. „Fólk er að vakna upp við það að tréin séu fyrir, engan óraði fyrir því fyrir mörgum áratugum þegar gróðursett var að þau yrðu svo stór eins og raunin er, þau eru fyrir af ýmsum ástæðum eða skerða útsýni umtalsvert og menn vilja losa sig við þau. Stundum er hægt að minnka umfangið með því að snyrta trén en svo eru önnur tilfelli þar sem eini kosturinn er að fella þau.“

 Mikil reynsla og góður búnaður

Hann segir að í mörgum tilvikum þurfi kunnáttu og réttan búnað til að fást við þessi erfiðu viðfangsefni. „Það getur orðið býsna flókið að fella há og stór tré inni í miðju íbúðarhverfi og alls ekki sama hvernig það er gert,“ segir hann. „Við eigum góðan búnað og höfum mikla reynslu í þessum efnum, það verður að gæta fyllsta öryggis, ekki bara að þeir sem eru að fella tréið haldi lífi heldur þarf líka að tryggja nánasta umhverfið.  Við reynum alltaf að sinna öllum okkar verkefnum, sem eru mjög fjölbreytt, af metnaði og alúð,“ segir Jón Heiðar.

Skógarmenn

Hér er Magnús að sveifla sér á milli trjáa til að nýta eitt og sama línuakkerið við að fella toppa af tveimur trjám við  Aðalstræti á Akureyri.

Athugasemdir

Nýjast