Mikið var leitað bæði til Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstarfsins fyrir jólin og mun fleiri fengu aðstoð en jafnan. Jóna Berta segir ástandið erfitt, nú um mánaðamót taki gildi fjöldi uppsagna frá því á liðnu hausti og margir fari ekki á atvinnuleysisbætur strax. Því sé viðbúið að þröngt verði í búi víða á næstu mánuðum. "Við finnum fyrir mikilli aukningu nú í janúar, en hjá okkur er opið einn dag í viku, á þriðjudögum," segir Jóna Berta. Mæðrastyrksnefnd er til húsa í Íþróttahöllinni, að vestan og er gengið inn frá Þórunnarstræti. Þar er líka fatamarkaður. "Við eigum afskaplega góða bakhjarla, fólk og fyrirtæki sem styður okkur en án þessa mikla stuðnings gætum við ekki haldið úti jafn öflugu starfi og við gerum," segir hún.
Jón Oddgeir Guðmundsson hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir flesta daga eitthvað að gera, en enn sem komið er sé engin ös, "ég hélt satt best að segja að það yrði meira um að fólk leitaði hingað í janúar, en ég hef á tilfinningunni að svo verði á næstu mánuðum. Það er að hellast yfir okkur mikið atvinnuleysi og margir hafa ekki mikil auraráð þessa dagana," segir hann. Gríðarleg aukning varð hjá Hjálparstarfinu í haust, í október og nóvember sem og einnig fyrir jólin.