Búið er að loka fyrir umsóknir í framhaldsskólana fyrir næsta haust. Alls verða 770 nemendur við nám í Menntaskólanum á Akureyri sem er töluvert fleiri en á síðasta skólaári. Þetta kemur fram á vef skólans. Þó verða færri nýnemar teknir inn en í fyrra, eða 220. Það skýrist af því að brottfall úr skólanum er minna, og munar þar mestu um hversu vel fyrstu bekkingum gekk í vetur, segir á vef skólans.
Í VMA er gert ráð fyrir að um 1100 nemendur hefji nám í haust. Fjöldi nýnema er svipaður og verið hefur eða 205. Samkvæmt upplýsingum frá skólanum er ágæt aðsókn í grunndeildir í iðnnámi, sérstaklega í rafiðngreinum og málmiðngreinum og ásættanlegur nemendafjöldi í byggingagreinum. Hins vegar verður ekki boðið upp á nám í matreiðslu næsta vetur vegna dræmrar aðsóknar.