Fleiri hafa sótt laugarnar á Akureyri að undanförnu

Alls komu um 330 þúsund gestir í Sundlaug Akureyrar á liðnum ári, um 30 þúsund fleiri en árið á undan.  Aðsókn í Glerárlaug var líka með ágætum, þangað komu um 60 þúsund gestir til að synda og í Hrísey voru skráðir um 6000 gestir á liðnu ári.  Aðsókn í sundlaugar jókst eftir bankahrunið í haust að sögn forsvarsmanna lauganna.  

Elín Gísladóttir forstöðumaður Sundlaugar Akureyrar segir að töluverð aukning hafi orðið á aðsókn tvo síðustu mánuði síðastliðins árs, "allt árið í fyrra var mjög gott, fín aðsókn alla mánuði, en við tókum samt eftir að fólki fór að fjölga umtalsvert í nóvember og desember í kjölfar efnahagsþrenginga og aukins atvinnuleysis,"  segir Elín.  Hún segir að nú eftir áramót hafi aðsókn verið mjög góð, einkum um helgar, en greinilegt sé að margt sé um ferðamanninn í Hlíðarfjalli um helgar.  "Við verðum mjög greinilega vör við þegar lokar í fjallinu, þá kemur holskeflan til okkar, það fyllist allt seinni partinn," segir hún

Alls komu 12.500 manns í Íþróttamiðstöðina í Hrísey, þarf af fóru um 6000 manns í sundlaugina.  "Það er í raun ótrúleg aðsókn í sunldaugina, íbúarnir eru um 170 talsins en suma daga eru allt að 100 manns í sundi.  Það er svipað hlutfall og um 10 þúsund gestir færu í Akureyrarlaug," segir hún.  Í þá laug hafa verið skráðir um 3000 gestir á einum og sama degi og segir Elín það fleiri gesti en hægt er með góðu móti að taka við.  "En það er frábært hvað Hríseyingar eru duglegir að nota laugina sína og við hlökkum bara til næsta sumars og vonum að framhald verði á góðri aðsókn."

Samúel Jóhannsson forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar í Glerárskóla segir að um 180 þúsund gestir hafi komið í miðstöðina á liðnu ári, þar af tæplega 60 þúsund sem skelltu sér í Glerárlaug.  "Íþróttamiðstöðin er mikið notuð og hér er að jafnaði fjöldi gesta, við erum ánægðir með aðsóknina," segir Samúel.  Hann telur að fleira fólk hafi sótt sundlaugina á liðnum mánuðum, eftir bankahrun og aukið atvinnuleysi, "en það er jafnan aukin aðsókn í laugarnar fyrstu mánuði ársins, þá ætlar fólk að taka sig á og hreyfa sig meira," segir hann.  Aðsókn í Glerárlaug var svipuð milli áranna 2007 og 2008, en Samúel segir að gestir séu jafnan á bilinu ríflega 50 þúsund upp í um og yfir 60 þúsund.  "Laugin er mjög vel nýtt, hér er skólasund yfir daginn, almennir gestir á almennum opnunartíma og svo nýta ýmis félög, t.d. fatlaðir og gigtarfélag, sér eyður sem koma inn á milli."

Nýjast