Fleiri afla sér kennsluréttinda eftir að hafa lokið öðru námi

Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason/Unak.is
Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason/Unak.is

Vikudagur sagði nýverið frá því að alls hafi 1.615 manns sótt um skólavist við Háskólann á Akureyri (HA). Það er 38 prósemt fjölgun frá fyrra ári. Á sama tíma sé fækkun í umsóknum í kennarafræði um 11 prósent.

Í tilkynningu frá HA segir að þessi fækkun segi þó ekki alla söguna því sífellt fleiri kjósa að afla sér kennsluréttinda eftir að hafa tekið bakkalár- eða meistarapróf.  Þegar litið er á tölurnar bak við þessa fækkun sést að níu færri sækja nú um fimm ára kennaranám miðað við árið áður. Séu þessar námsleiðir taldar með fimm ára náminu er aðsóknaraukning í réttindanám til kennslu um 8% við kennaradeild HA miðað við umsóknafjölda 2016. Þeim hópi (175 manns alls) til viðbótar eru 15-20 umsóknir frá fólki sem vill bæta við sig námi til þess að öðlast kennsluréttindi á öðru skólastigi en það hefur nú.

„Mér finnst líklegt að þegar upp verður staðið og vitað er hversu margir staðfesta umsóknir sínar að 140-150 manns hefji nám sem miðar að leyfisbréfi til kennslu á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi við HA á hausti komanda. Það er stór hópur,“ segir Bragi Guðmundsson, formaður kennaradeildar HA

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir að með lengingu kennaranámsins séu nokkrar leiðir færar til kennsluréttinda: „Við getum ekki lengur sett samasem merki við fjölda nemenda í fimm ára kennaranámi og fjölda brautskráðra kennara því æ fleiri munu fara aðra leið að kennsluréttindum. Þess vegna erum við ekkert smeyk við lítils háttar aðsóknarminnkun að fimm ára náminu og hafa verður hugfast að í því varð veruleg fjölgun árið 2016 frá því sem verið hafði árin á undan.“

 

Nýjast